Skoðun

Rúm­fata­lagerinn, ekki fyrir alla!

Ragnar Gunnarsson skrifar

Ég er ásamt fjölskyldu minni búinn að þurfa að standa í því síðustu dægrin,af illri nauðsyn, að endurnýja svo til allt á heimilinu. Hvort sem litið er til sturtu eða eldhúsinnréttingu. Það hefur verið þannig í gegnum þetta ferli að ég hef rekið mig á allskonar hindranir. Nú síðast var að því komið að kaupa nýtt hjónarúm og forstofuskáp. Ferðinni var því heitið í Rúmfatalagerinn í Skeifunni. Þar er ekki langt síðan verslunin var endurgerð og uppfærð. Mig rak því heldur betur í rogastans þegar ég rak mig á þá staðreynd að til þess að komast þar á efri hæðina til að skoða skápa og önnur húsgögn þurftum við að fara upp brattar tröppur og enginn aðgangur var að lyftu! Árið er 2025, verslunin er nýlega uppgerð og það er ekki aðgengi fyrir alla. Mér er hreinlega orða vant útaf svona fávita framkvæmdum. Ég og mín fjölskylda erum nú svo lánsöm að geta gengið upp tröppur, þó ég sé dulítið hreyfihamlaður. En það eru nú ekki allir svo heppnir og ég hélt einfaldlega að stjórnendur fyrirtækja nú til dags væru nógu vel gefnir til að átta sig á því einnig. En svo er greinilega alls ekki. Það er ekki ásættanlegt að fyrirtæki nú til dags geri ekki betur.

Höfundur er öryrki. 




Skoðun

Sjá meira


×