Erlent

Hafa frest til mánu­dags til að sleppa gíslunum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Fjöldi Palestínumanna sneri aftur að heimilum sínum eftir að vopnahlé tók gildi í gær. Mikil eyðilegging blasir við.
Fjöldi Palestínumanna sneri aftur að heimilum sínum eftir að vopnahlé tók gildi í gær. Mikil eyðilegging blasir við. AP

Hamas-samtökin hafa frest til hádegis á mánudag til þess að sleppa öllum tuttugu gíslunum sem enn eru í haldi samtakanna og eru taldir á lífi. Donald Trump Bandaríkjaforseti segir samtökin nú vinna að því að safna saman gíslunum og segist fullviss um að samtökin og Ísraelsstjórn haldi áætlun samkvæmt vopnahléssamkomulaginu. 

Í umfjöllun BBC segir að Ísraelsher komi til með að frelsa 1700 Palestínumenn sem eru í haldi á Gasa sem og um 250 palestínska fanga. Hamas virðast þó krefjast þess að fleiri föngum verði sleppt. 

Miðillinn hafði eftir Trump í gærkvöldi að Hamas ynni að því að safna saman gíslunum, sem séu vistaðir á torfærum svæðum.

Honum þætti líklegt að báðar hliðar héldu áætlun, þar sem allir væru orðnir „þreyttir á að berjast“. Þá sé nokkur samhljómur um næstu skref þó að enn þurfi að semja um einhver smáatriði. Stærsti ágreiningurinn í þeim efnum sé hvernig stjórnarfarið verður á Gasa í framhaldinu. 

Fundar um framtíð Gasa

Á mánudaginn mun Trump funda með, að eigin sögn, „fjölda leiðtoga“ um framtíð Gasa. Enn liggur ekki fyrir um hvaða leiðtoga ræðir. 

Í samkomulaginu var kveðið á um aukið flæði hjálpargagna inn á Gasa en samkvæmt upplýsingum frá Unicef hefur engin aðstoð borist í dag, hundruð flutningabíla bíði þess að komast inn fyrir landamæri Gasa. 

Frá því að vopnahlé tók gildi hafa hundruð þúsunda Palestínumanna flust til síns gamla heima en mikil eyðilegging á mannvirkjum og innviðum blasir við eftir linnulausar loftárásir Ísraelshers, líkt og sjá mátti í kvöldfréttum í gær.

Í þjóðarávarpi Benamíns Netanjahú forsætisráðherra Ísraels hótaði hann því að afvopna Hamas með valdi ef þau gera það ekki í sjálf. Þrátt fyrir vopnahléð umkringdi Ísraelsher ennþá samtökin og næsta skref í samkomulaginu yrði að Hamas afvopnist. Samtökin hafa þó ekki gefið neitt út um slíkt.


Tengdar fréttir

Hótar að beita Hamas hörðu af­vopnist samtökin ekki

Forsætisráðherra Ísraels hótaði því að afvopna Hamas-samtökin með valdi ef þau gera það ekki í sjálf í þjóðarávarpi eftir að vopnahlé tók gildi á Gasa í dag. Þúsundir íbúa á Gasa sem hafa þurft að flýja árásir Ísraela byrjuðu að streyma til síns heima í morgun.

Vopnahlé tekur gildi

Ríkisstjórn Ísrael hefur staðfest samkomulag um vopnahlé á Gasaströndinni. Leiðtogar Hamas-samtakanna hafa einnig samþykkt samkomulagið og hefur vopnahlé því tekið gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×