Innlent

Endur­kjörinn for­maður Starfs­greina­sam­bandsins

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Vilhjálmur var endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára.
Vilhjálmur var endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára.

Vilhjálmur Birgisson var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambands Íslands á þingi sambandsins í vikunni. Hann segist aldrei hafa fundið fyrir jafnmikilli samstöðu og nú.

Í færslu á samfélagsmiðlum segir Vilhjálmur að þriggja daga þing Starfsgreinasambandsins hafi verið haldið í Hofi á Akureyri í vikunni og lokið í gær. Alls hafi 135 þingfulltrúar setið þingið, fulltrúar frá öllum aðildarfélögum SGS, og þar hafi ríkt einstök samstaða og baráttusókn.

Vilhjálmur var endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára og í ræðu sinni þakkaði hann fyrir traustið.

„Hvorki stjórnvöld né atvinnurekendur geta hunsað okkur ef við stöndum saman sem eitt afl. Ég hef setið mörg þingin í áranna rás og hef í raun aldrei fundið fyrir jafnmikilli samstöðu og nú – og samt krafti – og það skiptir öllu máli,“ sagði hann meðal annars.

Í færslu Vilhjálms segir að á þinginu hafi verið samþykktar sjö afar mikilvægar ályktanir, meðal annars um byggðamál, starfsemi PCC á Bakka, húsnæðismál, kjaramál, leikskólamál, lífeyrismál og starfsemi erlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér á landi. 

Starfsgreinasambandið er fjölmennasta landssambandið innan ASÍ með samtals um 44.000 félagsmenn. Sambandið var stofnað 13. október 2000 við samruna Verkamannasambands Íslands sem stofnað var árið 1964, Þjónustusambands Íslands, vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum, sem stofnað var árið 1972 og Landssambands iðnverkafólks frá 1973.

„Meginhlutverk SGS er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum, standa vörð um áunnin réttindi, vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks,“ segir á vef SGS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×