Innlent

Í­hugar al­var­lega að sækjast eftir bæjarstjórastólnum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Vilhjálmur Árnason er ritari Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason er ritari Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður, segist íhuga það alvarlega að gefa kost á sér sem oddvita flokksins í Reykjanesbæ í sveitarstjórnarkosningum í vor. Hann segist stoltur af því að leitað sé til sín og segir tækifærin hvergi jafnmikil og í Reykjanesbæ.

Vilhjálmur hefur verið orðaður við oddvitasætið undanfarna daga. Í dag greindi Margrét Sanders, núverandi oddviti flokksins í Reykjanesbæ, frá því að hún hygðist ekki gefa kost á sér áfram. Sú ákvörðun hafi verið á margra vitorði, að sögn Vilhjálms, og þess vegna hafi margir komið að máli við hann.

Hann hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um hvort hann fari fram en íhugi það alvarlega.

„Ég lít á það sem vissa viðurkenningu á þeim störfum sem ég hef verið að sinna að svona margir horfi til mín þegar mikið liggur við og mikilvægt er fyrir Sjálfstæðisflokkinn að komast í meirihluta í Reykjanesbæ aftur og takast á við mikilvæg mál eins og rekstur bæjarins, skipulagsmálin eða mennta- og íþróttamálin. Mér finnst það mjög spennandi tækifæri en vika er langur tími í pólitík. Nú er að fara í hönd undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar innan flokksins í Reykjanesbæ eins og annars staðar. Þá þarf maður að fara að hugsa pínu hraðar og það líður að því að maður þurfi að taka ákvörðun um hvort maður taki slaginn,“ segir hann.

Sjálfstæðisflokkurinn er í minnihluta í bæjarstjórn í Reykjanesbæ. Meirihlutann skipa Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Bein leið. Vilhjálmur segir tækifærin hvergi meiri en á Suðurnesjum

„Þetta er mjög spennandi vettvangur sem ég er stoltur af að leitað sé til mín með og mun íhuga þetta alvarlega núna á næstunni,“ segir Vilhjálmur Árnason.


Tengdar fréttir

Fagnar miklum fjölda áskorana og liggur undir feldi

Vilhjálmur Árnason varaþingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins útilokar ekki framboð í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjanesbæ næsta vor. Hann segir marga hafa komið að máli við sig að undanförnu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×