Fótbolti

Allt í steik hjá Svíum: „Helvítis kerfið verður að fara“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Elanga í leiknum gegn Kósovó í gær.
Anthony Elanga í leiknum gegn Kósovó í gær. epa/Björn Larsson Rosvall

Það eru ekki bara sænskir fjölmiðlar og almenningur sem eru ósáttir við Jon Dahl Tomasson, þjálfara karlalandsliðsins í fótbolta, heldur virðast leikmenn þess líka vera orðnir pirraðir á uppleggi hans.

Svíar töpuðu fyrir Kósovóum, 0-1, í Gautaborg í undankeppni HM 2026 í gær. Svíþjóð er á botni B-riðils með einungis eitt stig eftir fjóra leiki og hefur aðeins skorað tvö mörk þrátt fyrir að vera með leikmenn eins og Alexander Isak, Viktor Gyökeres og Anthony Elanga innan sinna raða.

Sá síðastnefndi var verulega ósáttur eftir leikinn í gær og í leikmannagöngunum á hann að hafa sagt: „Helvítis kerfið verður að fara.“

Elanga var svo spurður nánar út í þessi ummæli sín.

„Við höfum verið að vinna með kerfi og hvernig við eigum að spila. Svo getur það litið aðeins öðruvísi út þegar maður er á vellinum. Við sem erum á vellinum verðum líka að taka ábyrgð,“ sagði Elanga sem byrjaði leikinn á bekknum en kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Aðspurður út í ummæli Elangas kvaðst Tomasson ekki geta tjáð sig um þau. Hann hefði einfaldlega ekki heyrt hvað Newcastle-maðurinn sagði.

Þótt Svíar séu í slæmri stöðu í B-riðlinum eiga þeir varaleið í umspilið um sæti á HM í gegnum Þjóðadeildina.

Í næsta mánuði mætir Svíþjóð Sviss á útivelli og Slóveníu á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×