Innlent

Flugumferðarstjórar boða vinnu­stöðvun

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Flugumferðarstjórar hafa boðað vinnustöðvun á sunnudagskvöld vegna stöðunnar í kjaraviðræðum þeirra. Þeir hafa verið samningslausir frá áramótum en að sögn formanns Félags íslenskra flugumferðarstjóra strandar málið á launaliðnum.

„Við teljum okkur vera komin á þann stað í þessum viðræðum að við erum tilneydd til þess að beita þessu, við erum búin að vera samningslaus síðan frá áramótum og í viðræðum síðan í apríl 2024, meira og minna sleitulaust. Það var komið að þessum tímapunkti að beiðni félagsfólks,“ segir Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

Yfir 97 prósent félagsmanna samþykktu vinnustöðvunina sem er sambærileg þeirri sem flugumferðarstjórar fóru í árið 2023. Vinnustöðvunin kemur til með að hafa áhrif á flug til og frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli. Hún varir frá klukkan tíu á sunnudagskvöld til þrjú aðfaranótt mánudags.

„Við ströndum fyrst og fremst á launaliðnum og launaþróun núna. Það er það sem er búið að vera í umræðunni síðustu vikur. Við náðum samkomulagi um samning í ágúst sem var felldur með yfirgnæfandi meirihluta,“ segir hann.

Arnar er á leið á fund núna fyrir hádegi og gerir ráð fyrir fleiri fundum í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×