Fótbolti

Lagerbäck úti­lokar að taka við Svíum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lagerback hefur starfað í sjónvarpi í Svíþjóð í kringum landsleiki þeirra.
Lagerback hefur starfað í sjónvarpi í Svíþjóð í kringum landsleiki þeirra. Michael Campanella/Getty Images

Lars Lagerbäck, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands og Svíþjóðar, hefur ekki áhuga á að taka við sem þjálfari heimaþjóðarinnar öðru sinni. Svíar hafa tapað þremur leikjum í röð og staða Danans Jon Dahl Tomassonar í þjálfarasætinu völt.

„Það eru gæði í þessu liði en það þarf að stilla það saman,“ sagði Lagerbäck eftir 1-0 tap Svía fyrir Kósóvó á heimavelli í gær. Svíar eru aðeins með eitt stig í riðli sínum í undankeppni HM eftir að hafa tapað fyrir Sviss í Stokkhólmi á föstudag.

„Það er full mikið einblínt á að Alexander Isak og Viktor Gyökeres geri hlutina sjálfir. Þetta virkar ekki svoleiðis í liðsíþróttum, að einn eða tveir leikmenn ráði úrslitum ítrekað,“ bætti Lagerbäck við.

Tomasson tók við af Janne Andersson í febrúar í fyrra. Svíþjóð hefur unnið níu leiki af 18 undir hans stjórn en tapað sjö. Svíar hafa gert eitt jafntefli og tapað þremur í undankeppni HM, þar á meðal eru tvö töp fyrir Kósóvó en eina stigið kom í 2-2 jafntefli við Slóveníu í byrjun september.

Sænskir miðlar segja neyðarfund vera á dagskrá hjá sænska knattspyrnusambandinu í dag þar sem næstu skref verða rædd, þar á meðal framtíð Tomasson í starfi.

Lagerbäck var spurður út í möguleikann á því að taka aftur við sænska liðinu.

„Nei, ég get fullyrt að ég tek ekki við. Það er klárt að ég verð ekki þjálfari liðsins. Ég sé það reglulega þegar ég lít í spegilinn að ég er orðinn gamall,“ segir hinn 77 ára gamli Lagerbäck.

„Ég loka almennt ekki dyrum í lífinu, en í þessu tilfelli geri ég það.“

Lagerbäck stýrði íslenska landsliðinu frá 2011 til 2016 og fór það undir hans stjórn, og Heimis Hallgrímssonar, á stórmót í fyrsta skipti, á EM 2016 í Frakklandi. Hann stýrði áður Svíþjóð frá 2000 til 2009 og var einnig þjálfari Nígeríu á HM 2010.

Lagerbäck tók við norska landsliðinu árið 2017 en hætti 2020 eftir að hafa mistekist að koma þeim norsku á stórmót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×