Viðskipti erlent

Svona lögðu Kín­verjar fram­tíðina undir sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjaldgæfir málmar eru gífurlega mikilvægir við framleiðslu nútíma tækja og tóla. Nánast önn vinnsla slíkra málma fer fram í Kína, þó þeir séu grafnir upp víða um heim.
Sjaldgæfir málmar eru gífurlega mikilvægir við framleiðslu nútíma tækja og tóla. Nánast önn vinnsla slíkra málma fer fram í Kína, þó þeir séu grafnir upp víða um heim. Getty/Marcus Yam, Los Angeles Times

Ráðamenn í Kína hafa varið fúlgum fjár og mikilli vinnu yfir marga áratugi í það að ná algerum yfirráðum á markaði svokallaðra sjaldgæfra málma. Nú er staðan sú að þeir svo gott sem stjórna heilum iðnaði sem er gífurlega mikilvægur birgðakeðjum ríkja um allan heim og nauðsynlegur til framleiðslu tækni nútímans og framtíðarinnar.

Fyrr í þessum mánuði nýttu Kínverjar svo þessi yfirráð sín í viðskiptadeilum sínum við ríkisstjórn Donalds Trump í Bandaríkjunum og settu mjög strangar og umfangsmiklar reglur á útflutning sjaldgæfra málma og afurða úr þeim.

Þessir málmar eru gífurlega mikilvægir við framleiðslu allskonar nútímatækja og tóla. Má þar nefna tölvuskjái, síma, bíla, herþotur og flugskeyti og allt þar á milli.

Áætlanir um yfirráð Kínverja á þessum markaði eru á nokkru reiki en fyrr á þessu ári áætluðu sérfræðingar Alþjóðaorkumálastofnunarinnar að Kínverjar grafi um 61 prósent af sjaldgæfum málmum heimsins úr jörðu. Þegar kemur að vinnslu þeirra eru Kínverjar þó með um 92 prósent markaðshlutdeild á heimsvísu. Kínverjar eru nánast þeir einu sem framleiða nokkra tiltekna málma.

Kínverskir jarðfræðingar telja, samkvæmt New York Times, að nærri því helmingur allra sjaldgæfra málma sem finna má á jörðinni séu í Kína.

Tálmar Kínverja fela í sér að fyrirtæki þurfa að fá sérstakt leyfi til að kaupa sjaldgæfa málma eða vörur úr þeim frá Kína. Einnig þarf leyfi til að selja vörur úr sjaldgæfum málmum frá Kína. Fram var tekið þegar tálmarnir voru kynntir að ekki yrðu veitt leyfi fyrir sölu málma sem nota ætti til hergagnaframleiðslu.

Miklar áhyggjur vegna tálma

Áður en tálmarnir voru tilkynntir fyrr í þessum mánuði hafði orðið töluverður samdráttur á útflutningi sjaldgæfra málma frá Kína. Í september fluttu Kínverjar 6,1 prósenti minna af þeim en þeir gerðu í ágúst.

Samkvæmt frétt Reuters hefur þetta vakið miklar áhyggjur um að aðgerðir Kínverja muni koma verulega niður á framleiðslu víða um heim og þá bæði á almennri framleiðslu og framleiðslu hergagna.

Í kjölfarið á yfirlýsingu ráðamanna Kína um nýju tálmana hótaði Trump að bóta Kínverja enn umfangsmeiri tollum og þá hótuðu Kínverjar enn harðari viðbrögðum. Trump dró þó seinna í land og gaf til kynna að hann ætlaði ekki að standa við hótanir sínar.

Unnu markvisst að því að ná yfirráðum

Í einföldu og stuttu máli sagt finnast sjaldgæfir málmar víða í skorpu jarðarinnar. Þeir eru þó sjaldan í æðum eða á takmörkuðum svæðum, heldur finnast þeir oftar en ekki dreifðir í tilteknu bergi. Vegna þessa getur reynst erfitt að sækja þá í jörðina. Það getur einnig komið mjög niður á umhverfinu að grafa eftir þeim og vinna þá.

Á tíunda áratug síðustu aldar voru Bandaríkjamenn umfangsmestir á markaði sjaldgæfra málma í heiminum og þá aðallega vegna stórrar námu í Kaliforníu. Þá byrjuðu Kínverjar að auka umsvif sín á þessum markaði. Umfangsmiklum fjármunum var varið í að styrkja fyrirtæki í greftri og vinnslu sjaldgæfra málma.

„Mið-Austurlönd hafa olíu. Kína hefur sjaldgæfa málma.“

Þetta sagði Deng Xiaoping, þáverandi forseti Kína, árið 1992 eins og fram kemur í grein New York Times.

Deng Xiaoping, fyrrverandi forseti Kína.Getty/Forrest Anderson

Forsvarsmenn þessara fyrirtækja voru hvattir til að kaupa erlend fyrirtæki og námur erlendis. Samhliða því voru samþykkt lög í Kína sem bönnuðu erlendum fyrirtækjum að fara í sambærilegar fjárfestingar þar í landi.

Í ítarlegri grein Wall Street Journal segir að yfir tímann hafi allur þessi iðnaður Kína færst á nokkrar hendur, sem gerði ráðamönnum þar og forsvarsmönnum umræddra fyrirtækja, enn auðveldara að stýra verði sjaldgæfra málma.

Það tók tiltölulega stuttan tíma en um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar var iðnaðurinn kringum sjaldgæfa málma svo gott sem horfinn frá Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn reyndu fyrir nokkrum árum að endurvekja iðnaðinn þar en þá opnuðu Kínverjar vöruskemmur sínar. Þeir flæddu markaðinn af málmum og grófu þannig undan rekstrargrundvelli bandarískra fyrirtækja, sem enduðu mörg á því að vera keypt af kínverskum fyrirtækjum.

Fyrri tálmar ólöglegir

Um árið 2005 fóru ráðamenn í Kína að setja nýja tálma á sjaldgæfa málma og segla úr þeim, sem gerði vestrænum fyrirtækjum erfitt með að kaupa málma og framleiða segla eða aðrar afurðir úr þeim.

Forsvarsmenn margra fyrirtækja ákváðu í kjölfarið að reisa verksmiðjur í Kína.

Árið 2012 höfðaði ríkisstjórn Baracks Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna, mál gegn Kína á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þá sökuðu Bandaríkjamenn Kínverja um að beita ólöglegum tálmum til að takmarka aðgengi annarra að sjaldgæfum málmum.

Kínverjar héldu því fram að tálmunum væri ætlað að tryggja sjálfbæra námuvinnslu og verja umhverfið.

Forsvarsmenn WTO komust árið 2014 að þeirri niðurstöðu að tálmarnir væru óréttlátir og í kjölfarið voru þeir felldir niður. Þá jókst útflutningur til Bandaríkjanna til muna og annað bandarískt fyrirtæki sem gekk út á námuvinnslu fór á hausinn þegar verðið lækkaði. Eins og segir í grein WSJ var það í annað sinn á nokkrum árum sem eina náma Bandaríkjanna á sviði sjaldgæfra málma fór á hausinn vegna lágs verðs frá Kína.

Líta til Ástralíu

Tæknin sem notuð er til að vinna sjaldgæfa málma er að lang mestu þróuð í Kína og hafa tálmar einnig verið settir á notkun hennar. Var það gert með því yfirlýsta markmiði að tryggja yfirráð Kínverja yfir vinnslunni í sessi.

Víða um heim leita ráðamenn og forsvarsmenn fyrirtækja að nýjum mörkuðum og nýjum námum. Það að opna nýjar námur á Vesturlöndum er þó ekki einfalt og eiga slík verkefni á hættu með að drukkna í hafi skriffinnsku og lögsókna.

Margir hafa beint sjónum sínum að Ástralíu, þar sem talið er að finna megi umtalsvert magn af sjaldgæfum málmum. Ráðamenn þar hafa sagt á undanförnum dögum að Ástralar geti reynt að fylla upp í tómarúmið.

Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifuðu í gær (mánudag) undir samkomulag um sjaldgæfa málma þegar Albanese heimsótti Trump í Washington.AP/Evan Vucci

Til marks um áhugann hafði virði hlutabréfa í einu námufyrirtæki í Ástralíu í síðustu viku hækkað um rúmlega helming á undanförnum mánuði.

Bandaríkjamenn hafa einnig beint sjónum sínum að Úkraínu Austur-Kongó og Pakistan í leit að sjaldgæfum málmum, samkvæmt frétt Al Jazeera.

Ástralar grafa talsvert magn af sjaldgæfum málmum úr jörðu en nánast allt er sent til Kína til vinnslu, samkvæmt frétt ríkisútvarps Ástralíu, þar sem þeir hafa tæknina og getuna til að gera slíkt. Innviðirnir fyrir vinnslu sjaldgæfra málma eru ekki mjög öflugir í Ástralíu.

Bandarísk og áströlsk fyrirtæki hafa skrifað undir samninga um að þróa nýjar vinnsluleiðir í sameiningu. Það þarf þó ekki eingöngu tækni heldur einnig starfsfólk sem kann að vinna sjaldgæfa málma og það býr flest allt í Kína í þessa dagana.

Kínverjar hafa einnig varið miklu púðri í að mennta og þjálfa menn í þessum geira og eru einnig langt á undan öðrum á því sviði.

Það mun taka tíma og mögulega töluverðan fyrir Vesturlönd að ná í hælana á Kínverjum þegar kemur að sjaldgæfum málmum en í millitíðinni lítur út fyrir að aðgengi vestrænna fyrirtækja og ríkisstjórna verði takmarkað. Því munu væntanlega fylgja einhver högg á birgðakeðjur víða um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×