Fótbolti

Matthías endar ferilinn á laugar­dag: „Sér­stök og svo­lítið skrýtin til­finning“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson vann þrjá stóra titla með Víkingum og alls fimmtán á öllum ferlinum.
Matthías Vilhjálmsson vann þrjá stóra titla með Víkingum og alls fimmtán á öllum ferlinum. Vísir/Hulda Margrét

Matthías Vilhjálmsson mun enda fótboltaferil sinn með því að lyfta Íslandsmeistaraskildinum með Víkingum um helgina.

Matthías gaf það út í kvöld að leikurinn á móti Val í lokaumferð Bestu deildar karla í fótbolta á laugardaginn verður síðasta leikur hans á ferlinum.

„Það er sérstök og svolítið skrýtin tilfinning að skrifa þetta. Leikurinn á laugardaginn verður minn síðasti leikur á ferlinum þar sem að eftir meira en tuttugu ár í meistaraflokksfótbolta hef ég ákveðið að leggja skóna á hilluna,“ skrifaði Matthías.

Hann fer stuttlega yfir magnaðan fótboltaferil sem hófst á Ísafirði. „Í rauninni hefur fótboltinn verið líf mitt síðan ég var barn á Ísafirði. Hann hefur kennt mér svo margt sem nýtist í lífinu sjálfu – vinnusemi, aga, auðmýkt og það að gefast aldrei upp,“ skrifaði Matthías.

Matthías segist vera stoltur af ferlinum og hann má líka vera það.

Hann varð í sumar Íslandsmeistari í fimmta sinn, vann þrjá titla með FH áður en hann fór út í atvinnumennsku og hefur unnuð tvo titla til viðbótar með Víkingum eftir að hann kom heima.

Matthías vann líka fjóra Noregsmeistaratitla með Rosenborg og hefur unnið þrjá bikarmeistaratitla á Íslandi og þrjá bikarmeistaratitla í Noregi.

Matthías vann því fimmtán stóra titla á sínum ferli, varð níu sinnum landsmeistari og sex sinnum bikarmeistari.

Leikurinn á móti Val verður 215. leikur hans í efstu deild á Íslandi og hann hefur skorað í þeim sextíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×