Viðskipti innlent

Enn meiri veik­leikar í sam­keppnis­hæfni Ís­lands en ESB

Kjartan Kjartansson skrifar
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, bendir á að tæknifyrirtæki séu enn minna sýnileg í íslensku kauphöllinni en í evrópskum kauphöllum. Það var á meðal mælikvarða í skýrslu ESB um hnignandi samkeppnishæfni í tækni og nýsköpun.
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, bendir á að tæknifyrirtæki séu enn minna sýnileg í íslensku kauphöllinni en í evrópskum kauphöllum. Það var á meðal mælikvarða í skýrslu ESB um hnignandi samkeppnishæfni í tækni og nýsköpun. Vísir

Veikleikar í samkeppnishæfni Evrópu sem lýst var í umfangsmiklli skýrslu fyrrverandi Seðlabankastjóra Evrópu í fyrra eru enn meira áberandi á Íslandi. Þingmaður Viðreisnar bendir á engin af verðmætustu fyrirtækjunum í íslensku kauphöllinni séu þannig tækni- og nýsköpunarfyrirtæki.

Dregin var upp dökk mynd af efnahagslegum horfum í Evrópu í skýrslu sem Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri Evrópu, vann um samkeppnishæfni álfunnar fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í fyrra.

Framleiðni ykist minna í Evrópu en í Bandaríkjunum og í Kína og ráðstöfnunartekjur almennings sömuleiðis. Varaði Draghi við að lífsgæði Evrópubúa ættu eftir að skerðast ef ekki yrði gripið í taumana með meiriháttar innspýtingu, afregluvæðingu og einfaldara ákvarðanatökuferli.

Á meðal þess sem Draghi benti á í skýrslunni var að Evrópa hefði orðið undir í samkeppni við Bandaríkin varðandi tækni og nýsköpun. Evrópsk sprotafyrirtæki flýðu jafnvel vestur um haf vegna hamlandi reglna í Evrópu.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, segir í aðsendri grein á Vísi í gær að sumir hafi notað Draghi-skýrsluna hér á landi til þess að draga upp þá mynd af ESB að það sé rjúkandi rúst og ekkert sé þangað að sækja fyrir Íslendinga.

Spyr þingmaðurinn hvernig samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs kæmi út ef sömu mælistikur væru notaðar og gert var í Draghi-skýrslunni.

Tæknifyrirtæki enn minna sýnileg en í Evrópu

Til stuðnings þess að Evrópa hafi orðið undir í tækni og nýsköpun var bent á í Draghi-skýrslunni að verðmætustu fyrirtækin í banarískum kauphöllum væru öll nýleg tæknifyrirtæki. Í Evrópu væri mun meira um hefðbundin framleiðslufyrirtæki sem stæðu á gömlum merg.

Í þessu samhengi bendir Pawel á að í íslensku kauphöllinni séu það fjármálafyrirtæki, smásalara, sjávarútvegsfyrirtæki og fasteignafélög sem tróni á toppnum.

„Allt er þetta starfsemi sem hefur verið til í áratugi. Tæknifyrirtækin eru jafnvel minna sýnileg en í ESB,“ skrifar þingmaðurinn sem tekur þó fram að tæknifyrirtækin Alvotech og Embla Medical hafi höfuðstöðvar á Íslandi þótt þau séu skráð í kauphallir annarra landa.

Ætli Íslendingar að tryggja samkeppnishæfni sína til framtíðar þurfi þeir að horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Það hafi ESB gert, fyrst með skýrslu Draghi og svo með margvísilegum viðbrögðum ríkja sambandsins við henni.

„Að gera það er ekki merki um veikleika, heldur styrk,“ skrifar Pawel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×