Erlent

Fleiri hand­teknir vegna ránsins í Louvre

Atli Ísleifsson skrifar
Enn hefur ekki tekist að hafa uppi á skartgripunum en verðmæti þeirra er talið vera um 90 milljónir evra.
Enn hefur ekki tekist að hafa uppi á skartgripunum en verðmæti þeirra er talið vera um 90 milljónir evra. AP

Lögregla í Frakklandi hefur handtekið fleiri í tengslum við ránið í Louvre-safninu í París fyrr í mánuðinum. Saksóknari segir að fimm til viðbótar hafi verið handteknir til viðbótar við þá tvo sem voru handteknir á laugardag.

Figaro hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni innan lögreglunnar að grunaður höfuðpaur sé í hópi hinna handteknu.

Mennirnir notuðust við stigabíl og brutu rúður til að komast inn á safnið að morgni 19. október síðastliðins. Tveir mannanna voru klæddir eins og starfsmenn í gulum vestum og voru þeir á safninu í um fjórar mínútur áður en þeir flúðu af vettvangi á vespum. Þeir notuðust við slípirokk til að komast að og stela hluta af skartgripasafni Napóleóns.

Síðasta laugardag voru tveir karlmenn - 34 og 39 ára – handteknir á flugvellinum Roissy-Charles-de-Gaulle þegar þeir voru á leið í flug til Alsírs.

Saksóknarinn Laure Beccuau sagði í gær að mennirnir tveir hafi að hluta viðurkennt aðild sína að málinu.

Enn hefur ekki tekist að hafa uppi á skartgripunum en verðmæti þeirra er talið vera um 90 milljónir evra.


Tengdar fréttir

Hafa játað aðild að ráninu í Louvre

Mennirnir tveir sem handteknir voru um helgina vegna ránsins í Lovure hafa játað, að hluta til, að hafa komið að ráninu. Tveir menn ganga enn lausir og krúnudjásnin og aðrir verðmætir munir sem þeir stálu af safninu hafa ekki fundist enn.

Myndavélar sneru í ranga átt er gripunum var stolið

Öryggismyndavélar sem vakta áttu svalirnar þar sem skartgripir Napóleons Bonaparte voru til sýnis á Louvre-safninu sneru í ranga átt þegar þjófar létu greipar sópa á sunnudag og hlupu á brott með gripina. 

Komust á brott með átta ómetanlega skartgripi

Búið er að finna tvo skartgripi sem var stolið úr Louvre í París í morgun. Alls voru níu hlutir teknir en þjófanir komust á brott með átta þeirra. Málið er til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×