Handbolti

Pat­rekur hættur eftir dapurt gengi Stjörnunnar

Sindri Sverrisson skrifar
Patrekur Jóhannesson hefur síðustu misseri stýrt kvennaliði Stjörnunnar en var áður með karlaliðið.
Patrekur Jóhannesson hefur síðustu misseri stýrt kvennaliði Stjörnunnar en var áður með karlaliðið. Vísir/Diego

Patrekur Jóhannesson er hættur sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handbolta. Í tilkynningu handknattleiksdeildarinnar er honum þakkað fyrir vel unnin störf hjá félaginu síðustu fimm ár.

Stjörnukonur hafa tapað fyrstu sex leikjum sínum í Olís-deildinni og sitja einar á botni deildarinnar. Í gærkvöld töpuðu þær svo me eins marks mun gegn 1. deildarliði FH, 23-22, í fyrstu umferð Powerade-bikarsins.

Patrekur, sem er 53 ára, er uppalinn Stjörnumaður og fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá Stjörnunni árið 2008 og hefur síðan þá þjálfað félagslið í Þýskalandi og Danmörku, auk Vals, Hauka og Selfoss en tvö síðastnefndu liðin gerði hann að Íslandsmeisturum. Þá stýrði Patrekur austurríska landsliðinu á árunum 2011-2019.

Frá árinu 2020 hefur Patrekur starfað fyrir Stjörnuna, sem þjálfari karlaliðs félagsins, rekstrarstjóri handknattleiksdeildar og loks sem þjálfari kvennaliðsins frá því í fyrravor.

Í tilkynningu Stjörnunnar segir að mikil uppbygging hafi átt sér stað innan handknattleiksdeildarinnar frá heimkomu Patreks og að hann eigi stóran þátt í henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×