Fótbolti

Suárez dæmdur í bann fyrir hælspark í mót­herja og missir af risaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez verður ekki með Inter Miami í úrslitaleiknum í einvígin á móti Nashville.
Luis Suarez verður ekki með Inter Miami í úrslitaleiknum í einvígin á móti Nashville. EPA/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH

Inter Miami verður án framherja síns Luis Suárez í oddaleiknum í fyrstu umferð úrslitakeppni MLS-deildarinnar eftir að aganefnd deildarinnar dæmdi Úrúgvæann í bann.

Suárez var dæmdur í eins leiks bann fyrir að sparka í Andy Najar hjá Nashville í seinni hálfleik leiksins þann 1. nóvember á GEODIS Park, þar sem Inter Miami tapaði 2-1.

Þegar atvikið átti sér stað gaf dómarinn Suárez hvorki gult né rautt spjald. Suárez sparkaði aftur fyrir sig með hælnum og í Najar sem lá eftir. Suárez þóttist vera alsaklaus og virtist saka Najar um leikaraskap en myndband af atvikinu sagði aðra sögu.

„Aganefnd MLS hefur dæmt framherja Inter Miami CF, Luis Suárez, í eins leiks bann og sektað hann um ótilgreinda upphæð samkvæmt þriðja viðmiði aganefndar fyrir ofbeldisfulla hegðun á 71. mínútu í leik Inter Miami gegn Nashville SC þann 1. nóvember. Suárez mun taka út eins leiks bann sitt þann 8. nóvember í leik Miami gegn Nashville SC,“ sagði aganefnd MLS í yfirlýsingu sinni.

Suárez mun nú taka út sitt annað leikbann í MLS-deildinni árið 2025, en hann fékk áður þriggja leikja bann fyrir að hrækja á starfsmann Seattle Sounders eftir úrslitaleik deildabikarsins þann 31. ágúst síðastliðinn.

Inter Miami fer nú inn í oddaleik í úrslitakeppninni án Suárez, þar sem liðið reynir að komast áfram í næstu umferð en tap þýðir að tímabilið er búið. Staðan í fyrstu umferð er jöfn 1-1 eftir að Inter Miami vann fyrri leikinn en tapaði þeim seinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×