Skoðun

Þeytivinda í sund­laugina og börnin að heiman

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar

Samfylkingin hlustar á þjóðina og bregst við þeim verkefnum sem brenna á fólkinu í landinu. Í síðustu viku gengu sjálfboðaliðar, þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar Samfylkingarinnar í hús í Garðabæ og spurðu íbúa hvað skipti þá mestu máli til að bæta daglega lífið. Áður höfum við gengið í hús í Sandgerði, Þorlákshöfn, Hafnarfirði og Grafarvogi.

Í Garðabænum komu fram fjölbreyttar ábendingar eins og að efla skólaþjónustu til að koma í veg fyrir skólaforðun barna, fjölga heimilislæknum og fá þeytivindu til að þurrka sundföt í sundlauginni. Einn rauður þráður sem birtist í samtölum jafnt við ungmenni sem og eldri borgara var ákall eftir því að ríkisstjórnin og sveitarfélögin tækju höndum með aðgerðir til að hjálpa ungu fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Afar og ömmur hafa áhyggjur af barnabörnunum sínum og framhaldsskólanemar eru byrjaðir að leggja fyrir til að eiga fyrir sinni fyrstu fasteign einn daginn.

Við erum að hlusta og ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er þegar byrjuð að tefla fram alvöru aðgerðum í húsnæðismálum. Í síðustu viku kynnti ríkisstjórnin fyrsta húsnæðispakkann sinn sem ólíkt fyrri aðgerðum ríkisstjórna beinir fyrst og fremst sjónum sínum að því að auka framboð, styðja við fyrstu kaupendur og draga úr hækkun húsnæðisverðs á næstu misserum.

Aukið framboð og stuðningur við fyrstu kaupendur

Í fyrsta húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar eru aðgerðir sem snúa að því að fjölga lóðum, hækka framlög til uppbyggingar á óhagnaðardrifnu leiguhúsnæði og stórfelldri einföldun á regluverki til að flýta fyrir uppbyggingu. Nýting séreignarsparnaðar er tryggð til 10 ára og getur fólk því ráðstafað séreignarsparnaði sínum skattfrjálst inn á húsnæðislánið sitt yfir þann tíma eða nýtt uppsafnaðan sparnað sem útborgun.

Ríkisstjórnin ætlar einnig að styrkja hlutdeildarlánakerfið og festa það í sessi. Framlög til hlutdeildarlána eru hækkuð um 1.500 milljónir, úthlutun verður tryggð í hverjum mánuði og lántökuskilyrðin verða rýmkuð svo að fleiri geti nýtt sér kerfið til að eignast sína fyrstu íbúð.

Þessar fjölbreyttu aðgerðir hjálpa fólki að eignast öruggt heimili, sama hvort það er í ódýrari langtímaleigu eða með því að kaupa sína fyrstu fasteign.

Rétt að byrja

Ríkisstjórnin hefur þegar boðað húsnæðispakka tvö á nýju ári en sá pakki verður unninn í samstarfi við sveitarfélögin með það að markmiði að auka framboð lóða og skapa hvata fyrir sveitarfélög til að skipuleggja ný hverfi. Einnig verður skoðað hvernig hægt verður að skipuleggja ríkislóðir undir húsnæðisuppbyggingu og að breyta byggingum í eigu ríkisins í íbúðarhúsnæði. Allt vinnur þetta að því að auka framboð, tryggja fólkinu okkar öruggt heimili og halda aftur hækkunum á húsnæðisverði.

Samfylkingin mun einnig halda áfram að ferðast um landið, banka á dyr og halda opna fundi með fólkinu í landinu. Við erum að hlusta og við störfum í þjónustu þjóðar.

Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Takk!

Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×