Skoðun

Frelsi til að taka góðar skipu­lagsákvarðanir

Róbert Ragnarsson skrifar

Ímyndum okkur heimili þar sem launin duga ekki fyrir öllum útgjöldum og afborgunum lána.

Sem betur fer á heimilið eignir sem hægt er að selja og hefur fengið reglulegan arð af verðbréfum. Það bjargar málunum um sinn, en smám saman færist fókusinn frá því sem mestu skiptir fyrir fjölskylduna yfir á það að selja eignir.

Þetta er ekki ákjósanleg staða til að taka góða ákvarðanir, en er því miður staðan í rekstri borgarsjóðs Reykjavíkurborgar í dag.

Reglulegar tekjur, þ.e. útsvar, fasteignaskattar og þjónustugjöld, duga ekki fyrir rekstri og afborgunum lána.

Borgin áætlar að ná rekstrarafgangi árið 2026 vegna óreglulegra tekna af sölu byggingaréttar og arðgreiðslna frá dótturfélögum. Tekjur sem óvíst er að skili sér að fullu.

Þegar rekstur er háður ótraustum byggingarréttartekjum hefur það áhrif á ákvarðanir. Þá er hvati til að selja og mögulega skapa skort til að hækka verð, frekar en að byggja upp það sem þarf.

Þá er hvatinn ekki lengur að taka bestu ákvörðun fyrir borgarbúa, heldur að ná inn tekjum til að halda rekstrinum á floti og geta borgað af lánum.

Sú staða hefur áhrif á ákvarðanir um hvar og hvernig íbúðahverfi eru byggð, og þess hversu hratt leikskólar og aðrir innviðir rísa.

Þegar reksturinn er háður því að hámarka tekjur af byggingarétti, hækkar verð á íbúðum og minni hvati verður til að byggja upp ný hverfi. Hverfi með íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir ungt fólk og með fullbúnum innviðum.

Við sjáum það í nýjum hverfum eins og Vogahverfinu, þar sem innviðir og þjónsuta fylgja ekki nægilega hratt eftir.

Sjálfbær rekstur er ekki bara spurning um að setja fram ársreikning með grænum tölum og viðmiðum, hann er forsenda þess að borgarfulltrúar hafi frelsi til að taka góðar ákvarðanir til framtíðar.

Það er ekki ósvipað og í heimilisrekstrinum. Þegar grunnurinn er traustur, ertu frjáls til að velja vel fyrir þig og þína.

Höfundur er með meistarapróf í stjórnmálafræði, með sérhæfingu í stjórnun og starfsumhverfi sveitarfélaga.




Skoðun

Sjá meira


×