Fótbolti

Rómantík hjá Arnari: „Feginn að hann sé ekki ein­hver stuðnings­full­trúi“

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson er mættur aftur í íslenska hópinn, og beint í byrjunarliðið.
Jóhann Berg Guðmundsson er mættur aftur í íslenska hópinn, og beint í byrjunarliðið. Vísir/Hulda Margrét

Jóhann Berg Guðmundsson spilar sinn hundraðasta A-landsleik í kvöld, gegn Aserbaísjan í undankeppni HM í fótbolta. Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson ræddu um „óvænta“ endurkomu Jóhanns í byrjunarliðið, á Sýn Sport fyrir leik.

Kári kvaðst handviss um að það væri rómantíkin í Arnari Gunnlaugssyni landsliðsþjálfara sem gerði að verkum að hann hefði skellt Jóhanni beint í byrjunarliðið, eftir að hafa ekki haft hann í hóp í haust.

„Ég held að það séu hundrað prósent líkur á að þú sért búinn að negla þetta þarna. Þetta er akkúrat svona sögulína sem Arnar elskar. Það kæmi mér ekkert á óvart að Jói skori,“ sagði Kári við Kjartan Atla Kjartansson.

Lárus Orri Sigurðsson var einnig ánægður með að sjá Jóhann í byrjunarliðinu:

„Mér líst vel á þetta. Það er mjög gaman að fylgjast með þessu hjá Arnari og það kæmi manni mjög á óvart ef það væri ekkert óvenjulegt í gangi. Það að hann skyldi hafa valið Jóa núna, eftir að hafa fryst hann úti í tvo glugga, kom á óvart en ég er bara mjög feginn að hann sé ekki einhver stuðningsfulltrúi þarna. Það verður mjög spennandi að fylgjast með honum þarna á kantinum,“ sagði Lárus en umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Umræða um Jóhann Berg fyrir leik

Leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn Sport, í opinni dagskrá. Beina textalýsingu má finna á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×