Handbolti

Úti er ævin­týri hjá Elínu Klöru en HM tekur við

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir getur nú farið að einbeita sér að komandi heimsmeistaramóti.
Elín Klara Þorkelsdóttir getur nú farið að einbeita sér að komandi heimsmeistaramóti. vísir/Lýður

Landsliðskonan Elín Klara Þorkelsdóttir verður ekki í Evrópudeildinni í handbolta í vetur eftir að lið hennar, Svíþjóðarmeistarar Sävehof, féll úr leik með tapi gegn Viborg í Danmörku í dag.

Liðin höfðu gert 31-31 jafntefli í fyrri leiknum í Svíþjóð fyrir viku en í dag varð Sävehof að sætta sig við 39-30 tap, og þar með samtals 70-61 tap í einvíginu um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Sävehof komst þó í 10-7 í dag en Viborg hafði náð forystunni fyrir lok fyrri hálfleiks og var 19-16 yfir í hléi. Viborg skoraði svo fyrstu fimm mörkin í seinni hálfleik og þar með var ekki lengur spurning um hvernig færi.

Elín Klara var þriðja markahæst hjá Sävehof í dag með fjögur mörk.

Næsta verkefni hennar er af stærri gerðinni því nú tekur við sjálft heimsmeistaramótið með íslenska landsliðinu, þar sem fyrsti leikur er við Þýskaland eftir ellefu daga.

Í sænsku úrvalsdeildinni, sem Sävehof spilar einnig í, var annað Íslendingalið á ferðinni. Berta Rut Harðardóttir skoraði þrjú mörk í 36-29 tapi Kristianstad gegn Höörs á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×