Fótbolti

„Eggert kominn með stóra brosið og allir glaðir“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Gunnlaugsson og hans menn eru einum afar erfiðum leik frá því að komast í HM-umspilið.
Arnar Gunnlaugsson og hans menn eru einum afar erfiðum leik frá því að komast í HM-umspilið. Getty/Ramsey Cardy

Arnar Gunnlaugsson býr sig undir afar krefjandi leik Íslands gegn Úkraínu á morgun, um að komast í HM-umspilið í fótbolta. Hann segir alla sína lærisveina klára í slaginn og að liðið þurfi að sýna betri varnarleik en í Aserbaísjan á fimmtudaginn.

„Það eru allir heilir. Æfðu allir áðan. Stutt síðan síðasti leikur var og sumir eru lemstraðri en aðrir. Menn eru að ná áttum aftur, erfið ferðalög og tímamismunur, en núna lítur út fyrir að hópurinn sé góður. Eggert er kominn með stóra brosið sitt og allir eru glaðir,“ sagði Arnar hress á blaðamannafundinum í Varsjá í dag. Þar vísaði hann til komu Eggerts Arons Guðmundssonar sem kallaður var til úr U21-landsliðinu vegna meiðsla Mikaels Andersonar.

Arnar var spurður út í gagnrýni Lárusar Orra Sigurðssonar í útsendingu Sýnar Sport á varnarleik Íslands gegn Aserum síðasta fimmtudag, og hvort hann hefði áhyggjur fyrir leikinn á morgun.

„Ég hef alltaf áhyggjur, ég held að það sé eðli þjálfarans. Þetta fer eftir því með hvaða gleraugum þú horfir á leikinn í Bakú. Þetta voru eðlileg viðbrögð [hjá leikmönnum]. Úrslitaleikur sem beið okkar við Úkraínu. Leikmönnum leið vel eftir fyrri hálfleikinn og ætluðu að taka þetta með annarri hendi í seinni. Aserarnir stigu á bensíngjöfina og höfðu engu að tapa en í minningunni náðu þeir ekki að skapa nein hættuleg færi, nema kannski eftir okkar klaufagang,“ sagði Arnar.

„Þá munum við aldrei fara á HM“

Ísland vann 2-0 sigur gegn Aserum og er nú í þeirri stöðu að duga jafntefli á morgun til að komast í HM-umspilið.

„En ég skil hvert menn eru að fara. Ef við ætlum að spila varnarleik eins og í seinni hálfleik gegn Aserum þá munum við aldrei fara á HM. Ég held að strákarnir viti það. Hingað til höfum við spilað opinn varnarleik mjög vel í þessari keppni. Ég veit að þá koma margir og segja að við fengum fimm mörk á okkur á móti Úkraínu. Við erum búnir að fara yfir þau mörk. Við fengum á okkur fjögur gegn Frökkum. En leikirnir á móti Aserbaísjan voru fagmannlega unnir. Heilt yfir gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum sterkari varnarleik á morgun til að komast áfram,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×