Handbolti

„Þetta er allt annað dæmi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hafdís Renötudóttir átti góðan leik fyrir Val í kvöld.
Hafdís Renötudóttir átti góðan leik fyrir Val í kvöld. Vísir/Diego

„Við sýndum okkar rétta andlit í dag,“ sagði Hafdís Renötudóttir, markvörður Vals, eftir jafntefli liðsins gegn þýska stórliðinu Blomberg-Lippe í forkeppni Evrópudeildarinnar í handbolta.

Valskonur máttu þola þrettán marka tap í fyrri leik liðanna og eru því úr leik, en geta borið höfuðið hátt eftir frammistöðu kvöldsins.

„Við erum mjög svekktar með það sem gerðist í síðasta leik og það endurspeglaði alls ekki getumuninn á okkur. Jafntefli voru bara frekar góð úrslit myndi ég segja á móti gríðarlega sterku liði. Þetta var aðeins betra hjá okkur en í síðustu viku.“

Hún segir augljósan mun hafa verið á spilamennsku liðsins milli leikja.

„Þetta er svolítið öðruvísi þegar maður mætir pressulaus inn í leikinn. Við ætluðum okkur klárlega sigur í dag og rétt svo misstum af honum.“

Þá segir hún að þessir leikir muni nýtast vel í komandi verkefnum með landsliðinu.

„Mér fannst þetta virkilega góður undirbúningur fyrir Þýskalandsleikinn sem er framundan á HM með landsliðinu. Ég er bara virkilega ánægð að fá að spila hérna á móti tveim eða þrem þýskum landsliðskonum. Það er allt annar hraði, tækni og skot á þeim. Þetta er allt annað dæmi og vonandi verðum við betur undirbúnar þegar við mætum sterku þýsku landsliði eftir tvær vikur.“

Að lokum segir hún augljósan stigsmun á Evrópubikarnum, sem Valur vann á síðasta tímabili, og Evrópudeildinni.

„Já, hundrað prósent. Þetta er allt annað dæmi. Þú sérð að við fáum bara allt í einu topplið Þýskalands í forkeppninni. Við fengum svo sem Malaga í fyrra sem var þá á toppnum á Spáni, en það er klárlega stigsmunur og gaman að fá að spreyta sig á móti þessum liðum,“ sagði Hafdís að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×