Fótbolti

Heimir um Ís­land: „Finnst vanta að­eins kjöt á beinin“

Aron Guðmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson fylgist eins vel með íslenska landsliðinu eins og hann getur.
Heimir Hallgrímsson fylgist eins vel með íslenska landsliðinu eins og hann getur. Vísir/Getty

Heimir Hall­gríms­son hefur hrifist af þeim skrefum sem ís­lenska lands­liðið hefur tekið undir stjórn Arnars Gunn­laugs­sonar, hann segir þó vanta kjöt á beinin hjá liðinu. 

Ís­lenska lands­liðið náði ekki að tryggja sig áfram í HM um­spil næsta árs í gegnum undan­keppni mótsins, 2-0 tap gegn Úkraínu í hreinum úr­slita­leik, sá til þess.

Heimir sem nú þjálfar írska lands­liðið, var áður lands­liðsþjálfari Ís­lands með Lars Lager­back og svo einn síns liðs og fór með Ís­land á tvö stór­mót, þau einu til þessa í sögunni karla megin.

Heimir, sem kom Ír­landi áfram í HM um­spilið, fylgist alltaf grannt með gengi ís­lenska lands­liðsins og hefur hrifist af framþróun liðsins undir stjórn Arnars Gunn­laugs­sonar en segir vanta upp á suma eigin­leika.

„Ég er bara mjög skotinn í þessu ferli hjá okkur og Arnar hefur bara unnið starf og gert miklu meira og hraðar en ég þorði að vona,“ segir Heimir í samtali við íþrótadeild. „Þetta er skemmti­legt lið sem við eigum, flottir fót­bolta­strákar. Mér finnst vanta aðeins kjöt á beinið, margir af þeim eigin­leikum sem voru í liðinu þegar að ég og Lars þjálfuðum það sem og í seinni hlutann eru minni í dag. Við erum betri með boltann en vorum betri jafn­vel án boltans, betri tengingar á milli leik­manna þá heldur en er í dag. Þetta eru auðvitað bara ungir strákar og ungir strákar eiga yfir­leitt ekki jafn stöðugar frammistöður.“

Allt þetta svipi þó til þess sem var raunin hjá íslenska landsliðinu þegar að Heimir og Lars tóku við liðinu á sínum tíma. 

„Vonandi endar það líka á sama hátt og gerðist hjá okkur. Mér finnst Arnar koma vel fram og það halda allir með honum, þetta er flottur náungi og ég held hann nái til strákanna. En það er líka ekkert hægt að ætlast til þess að þeir séu jafn grimmir og jafn góðir í varnar­leik. Það eru aðrir eigin­leikar í þessu liði heldur en voru í hinu. Þú verður alltaf að velja og hafna hvað þú gerir. Þetta er bara leiðin sem var farin, þetta er lands­liðið okkar og við verðum bara að styðja við það hvernig sem fer og gengur. Stundum verða sigrar og stundum töp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×