Erlent

Þing­menn segja Trump reyna að hræða þá með rann­sókn FBI

Samúel Karl Ólason skrifar
Öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrverandi herflugmaður og geimfari, stendur frammi fyrir tveimur rannsóknum vegna myndbands sem hann og fimm aðrir þingmenn birtu. Í myndbandinu hvöttu þau hermenn og starfsmenn leyniþjónusta til að framfylgja ekki ólöglegum skipunum stjórnvalda. Hermenn eiga samkvæmt bandarískum lögum ekki að framfylgja ólöglegum skipunum.
Öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrverandi herflugmaður og geimfari, stendur frammi fyrir tveimur rannsóknum vegna myndbands sem hann og fimm aðrir þingmenn birtu. Í myndbandinu hvöttu þau hermenn og starfsmenn leyniþjónusta til að framfylgja ekki ólöglegum skipunum stjórnvalda. Hermenn eiga samkvæmt bandarískum lögum ekki að framfylgja ólöglegum skipunum. AP/John McDonnell

Sex þingmenn Demókrataflokksins segja starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) vilja ræða við þá, vegna umdeilds myndbands sem þeir birtu á dögunum. Í því myndbandi hvöttu þingmennirnir starfandi hermenn og starfsmenn leyniþjónusta til að neita að fylgja skipunum Donalds Trump, forseta, ef þær skipanir væru ólöglegar.

Þau sögðu aðila innan Bandaríkjanna ógna stjórnarskrá ríkisins og sögðu að þau myndu standa við bak hermanna sem neituðu ólöglegum skipunum.

Umræddir þingmenn eru Elissa Slotkin, Mark Kelly, Jason Crow, Maggie Goodlander, Chris Deluzio og Chrissy Houlahan. Samkvæmt lögum Bandaríkjanna er hermönnum skylt að neita að fylgja ólöglegum skipunum. Það að reyna að verjast lögsókn seinna meir með því að segjast eingöngu hafa verið að fylgja skipunum að ofar fríar engan ábyrgð.

Trump hefur lagt til að hengja ætti þingmennina vegna myndbandsins.

Viðtölin benda til þess að málið sé til rannsóknar hjá FBI en áður hafði varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnt að öldungadeildarþingmaðurinn Mark Kelly, sem starfaði áður í flugher Bandaríkjanna, sem orrustuflugmaður og geimfari, væri til rannsóknar vegna gruns um að hann hefði brotið gegn lögum hersins.

Segja Trump nota FBI til að hræða andstæðinga

AP fréttaveitan segir að saman marki þessar rannsóknir mikla kúvendingu í bæði alríkisréttarkerfinu og réttarkerfi hersins, þar sem áhersla hefur lengi verið lögð á að forðast pólitískar deilur. Þá þykja rannsóknirnar sýna hversu langt ríkisstjórnin er tilbúin til að ganga til að ná höggi á pólitíska andstæðinga Trumps.

Sjá einnig: Ákærur gegn Comey og James felldar niður

Nokkrir þingmannanna sex hafa tjáð sig um málið og segja að Trump sé að nota FBI sem hræðslutól til að þagga niður í gagnrýnendum sínum. Það muni ekki virka að þessu sinni.

Elissa Slotkin, ein þingmannanna, sagði að hvort sem fólk væri sammála því sem fram kæmi í myndbandinu eða ekki, væri spurningin í hennar huga sú hvort það væri í lagi að forseti Bandaríkjanna beitti ríkinu með þessum hætti gegn andstæðingum sínum.

Þingmennirnir vísuðu í myndbandinu ekki til neinna sérstakra skipana sem gætu verið ólöglegar en eftir að myndbandið var birt hafa þau nefnt árásir Bandaríkjamanna á báta sem sagðir eru vera notaðir til að flytja fíkniefni til Bandaríkjanna og beitingu hermanna gegn Bandaríkjamönnum í bandarískum borgum.

Slotkin hefur sagt að starfandi hermenn hafi haft samband við þau og lýst yfir áhyggjum sínum af því að þeim yrði skipað að gera eitthvað ólöglegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×