Innlent

Þor­björg hættir aftur hjá Sam­tökunum´78

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þorbjörg var formaður Samtakanna í þrjú ár og hefur frá árinu 2021 verið bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans. Árið 2023 tók hún við starfi kynningarstjóra.
Þorbjörg var formaður Samtakanna í þrjú ár og hefur frá árinu 2021 verið bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans. Árið 2023 tók hún við starfi kynningarstjóra. Aðsend

Þorbjörg Þorvaldsdóttir hættir sem samskipta- og kynningarstjóri Samtakanna ´78 um áramótin. Þorbjörg tilkynnir um vistaskiptin í Facebook-færslu í dag. Hún segir óvíst hvað taki við en hún sé afar þakklát að hafa fengið að sinna þessu hlutverki. Þorbjörg segir óvíst hvað taki við umfram áframhaldandi bæjarpólitík en hún hefur setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá því 2021.

„Þegar ég hætti sem formaður Samtakanna ‘78 árið 2022 hélt ég að sögu minni hjá félaginu væri lokið. Ég grenjaði á aðalfundi, tók við blómvendi, tilkynnti um framboð í bæjarstjórn og leið algjörlega eins og ég væri að loka kafla í mínu lífi. Það reyndist síðan ekki alls kostar rétt. Ári síðar var ég fengin til þess að koma aftur til starfa hjá Samtökunum ‘78, í þetta skipti í launað starf, með það opna hlutverk að vinna markvisst gegn auknum fordómum og andúð í garð hinsegin fólks á Íslandi,“ segir Þorbjörg í færslu sinni.

Hún segist síðustu ár hafa gert sitt allra besta til að standa undir því trausti sem henni hafi verið falið með ráðningunni.

Þorbjörg hefur í starfi sínu oft og mörgum sinnum komið fram í viðtölum fyrir samtökin en viðtal hennar í Kastljósi í haust, þar sem hún og þingmaður Miðflokksins, Snorri Másson, tókust á um stöðu hinsegin fólks í samfélaginu, vakti mikla athygli. Hún sagði eftir viðtalið að henni hefði aldrei verið sýnd jafn mikil vanvirðing í opinberri umræðu.

Hún viðurkennir í færslu sinni að það sé skrítið að standa á þessum tímamótum aftur, en það sé kominn tími á breytingar.

„Ég er svo þakklát Samtökunum ‘78 og fólkinu innan þeirra fyrir allan stuðninginn, vináttuna og gleðina - þá og nú. Erfiðleikana og þroskann. Tækifærin og sigrana. Það var ómetanlegt fyrir mig að fá að leiða félagið á sínum tíma og það hefur verið ómetanleg reynsla fyrir mig undanfarin tæp þrjú ár að fá að vinna beint að mínum hjartans málum á skrifstofunni. Ég er svo stolt af öllu því sem við höfum áorkað. Það er enn þá óvíst hvað tekur við hjá mér (umfram áframhaldandi bæjarpólitík), en ég hlakka til að komast að því. Lífið leiðir mann víst bara einhvern veginn áfram,“ segir hún að lokum.

Færsla Þorbjargar. Facebook

Tengdar fréttir

Sótt að Snorra vegna fram­komu hans og forn­eskju­legra skoðana

Öll spjót standa nú á Snorra Mássyni, þingmanni Miðflokksins, eftir umdeilda framkomu hans í Kastljóssþætti um bakslag gegn hinsegin fólki. Ráðherra líkir honum við „geltandi kjána“ og margir gagnrýna forneskjulegar skoðanir hans í garð hinsegin fólks og yfirgang í umræðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×