Skoðun

Minna stress meiri ró!

Magnús Jóhann Hjartarson skrifar

Nú þegar jólin nálgast og stressið og hraðinn tekur völdin þá er mikilvægt að ná ró. Jólin eru einmitt tíminn sem hægt er að nota til að tengjast sjálfum sér og fólkinu sínu betur.

Tíminn milli jólaboða og sælgætisáts getur verið vel nýttur, og þar kemur stóísk heimspeki fullkomnlega inn. Þar eru lexíur sem hver og einn getur tekið með sér inn í daginn sinn og nýja árið.

Hvað er stóísk heimspeki?

Stóísk heimspeki á rætur sínar að rekja til Grikklands á 3. öld f.Kr., stofnuð af Zeno frá Citium. Hún snýst í grunninn um að lifa í samræmi við rökræna hugsun, náttúruna og innri ró. Kjarninn í því er að skilja á milli þess sem þú sem einstaklingur hefur stjórn á eins og viðhorfum, viðbrögðum og að einhverju leiti hugsunum, og þess sem þú hefur ekki stjórn á, eins og skoðunum annarra, fortíð og framtíð.

Þegar ég nefni hugsanir er ég alls ekki að meina að við getum stjórnað hugsunum okkar. En það er hægt að gangast við þeim og taka bara eftir þeim. Þá ertu að aðskilja sjálfan þig frá þeim hugsunum sem koma upp. Þar með að aftengjast þínu eigin egoi

Egoið virðist í dag vera að stjórna öllum. Streitan og hraðinn keyrir marga í uppgjöf og kulnun. Það birtist líka í innri hvötum eins og löngun til að græða meiri peninga, fara fleiri utanlandsferðir og eignast flottari bíla en Jói nágranni.

Ef horft er á stærra samhengið, þegar fólk er of tengt eigin egoi, eins og við sjáum í núverandi hernaðarátökum víða um heim. Þar sem trúarbrögð eða hugmyndafræði fær fólk til að fara í stríð og jafnvel drepa náungann vegna ótta við að missa eitthvað sem það skilgreinir sem „sitt“.

En hvernig getur þú nýtt þér þennan ævaforna boðskap sem stóísk heimspeki er?

Það gerir þú með því að sleppa sögunum sem þú heldur um sjálfan þig og aðra. Fyrir mitt leyti þýðir það að hætta stundum að hugsa um Magnús Jóhann sem einkaþjálfara, borðtennisleikmann, hlaupara og einhvers konar áhrifavald. Þess í stað að vera tengdur tilfinningum mínum, líkama og þakklæti fyrir það að vera til.

Það er nú alveg sturlað að ég og þú, kæri lesandi, erum gangandi á þessari jörð, andandi að okkur súrefni, flest með mat á disknum okkar og vonandi með þak yfir höfuðið.

Ég legg til að stóísk heimspeki ætti að vera kennd í öllum grunnskólum landsins. Ég kynntist henni ekki í gegnum skólakerfi landsins, hvorki grunnskóla, menntaskóla né háskóla. Ég kynntist henni í gegnum í samfélagsmiðla eins og youtube og erlend hlaðvörp. Ég las bækur og æfði mig markvist í þessari tækni sem hefur hjálpað mér gífurlega að ná þeim árangri sem ég hef í dag.

Ég trúi því að það gæti verið ómetanlegt fyrir ungt fólk að kynnast þessari stóísku heimspeki sem fyrst og byrja að tileinka sér tækni hennar.

Þannig getur þú lesandi góður strax í dag fengið að upplifa gleðina og frelsið sem felst í því að vera hér og nú. Kennum börnum landsins íhugun og tileinkum okkur meiri stóíska heimspeki. Því það er alveg hægt. Þú þarft ekki að fara til Balí á jóganámskeið eða hlaupa 100 km til að upplifa þetta. Það er hægt hér og nú.

Þannig náum að minnka stressið og ná meiri ró.

Gleðileg jól.

Höfundur er einkaþjálfari og heilsuráðgjafi í Hreyfingu.




Skoðun

Sjá meira


×