Handbolti

Boða upp­sagnir hjá Ís­lendingaliðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur leikið með Kolstad frá árinu 2022. Hann er meðal leikmanna sem þurfa að taka á sig launalækkun.
Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur leikið með Kolstad frá árinu 2022. Hann er meðal leikmanna sem þurfa að taka á sig launalækkun. Getty/Igor Kralj

Norska handknattleiksfélagið Kolstad glímir við fjárhagskröggur og hefur nú boðað uppsagnir sem vonast er til að hjálpi við að rétta af reksturinn.

Eins og fjallað var um fyrr í þessari viku þurfa stærstu stjörnur Kolstad, á borð við íslenska hornamanninn Sigvalda Björn Guðjónsson, að taka á sig launalækkun vegna fjárhagsvandræða félagsins.

Sigvaldi er fyrirliði Kolstad en einnig hafa Andreas Palicka, Gøran Johannessen, Magnus Gullerud og Simen Lyse þurft að taka á sig launalækkun, samkvæmt norskum miðlum.

Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigurjón Guðmundsson leika einnig með Kolstad sem hefur lagt mikið í sölurnar síðustu ár til að koma sér í fremstu röð í Evrópu. árangurinn hefur verið góður heima fyrir en látið á sér standa í Meistaradeild Evrópu.

Félagið spennti bogann afar hátt og voru menn á borð við Janus Daða Smárason, Magnus Rød, Torbjørn Bergerud og Sander Sagosen fengnir en hafa yfirgefið félagið. Arnór Snær Óskarsson yfirgaf félagið í haust og sneri aftur til Vals.

Fækka stöðugildum

Samkvæmt Adresseavisen hafa nú einnig verið boðaðar uppsagnir starfsfólks sem ekki spilar fyrir Kolstad innan vallar. 

Blaðið segir að 11,5 stöðugildi séu hjá félaginu en að þeim fækki auk þess sem nokkrir einstaklingar hafi þegar hætt og ekki verði ráðið í þeirra störf. 

Tap Kolstad árið 2024 nam 5,9 milljónum norskra króna. Vonir stóðu til að hagnaðurinn yrði þrjár milljónir í ár en það mun ekki ganga eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×