Handbolti

KA í undan­úr­slit á kostnað bikarmeistaranna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sex mörk í kvöld.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sex mörk í kvöld. Vísir/Vilhelm

KA og Haukar komust í kvöld í undanúrslit Powerade-bikars karla í handbolta. KA sló ríkjandi meistara úr leik.

Leikur KA og Fram á Akureyri var spennandi lengst af. Fátt fékk liðin skilin að og þau skiptust á að skora – heimamenn þó alltaf skrefi á undan. KA-menn leiddu 14-11 undir lok hans en tvö mörk Framara þýddu að munurinn var eitt mark, 14-13 í hálfleik.

Fram komst í fyrsta skipti yfir í leiknum fljótlega eftir hléið í stöðunni 17-16 og juku þann mun í tvö mörk, 20-18. Heimamenn nýttu þá stemninguna í húsinu til að taka yfir leikinn um stund, skoruðu sex mörk gegn einu og leiddu 24-21.

Forystuna létu KA-menn ekki af hendi eftir það. Munurinn endaði í fimm mörkum, 30-25.

Morten Linder var markahæstur Norðanmann með sjö mörk en Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sex. Danjál Ragnarsson skoraði tíu fyrir gestina sem verja ekki titil sinn í ár.

Aron Rafn stórkostlegur

Þá áttust við HK og Haukar í Kórnum. Haukar voru taldir líklegri aðilinn fyrir fram en leikurinn var jafn framan af. Munurinn varð ekki meira en eitt mark fyrstu 20 mínútur leiksins eða svo.

Aron Rafn Eðvarðsson varði 19 skot og skoraði eitt mark í lokin til að kóróna frábæran leik sinn.Vísir/Hulda Margrét

Þá hrukku gestirnir úr Hafnarfirði í gang og munurinn fimm mörk þegar hálfleiksflautið gall, 16-11 fyrir Hauka.

Liðin skiptust á áhlaupum eftir hléið en forystuna létu Haukar aldrei af hendi. Beint rautt spjald Ólafs Ægis Ólafssonar á lokakaflanum hafði lítið að segja um niðurstöðuna þar sem Haukar unnu þægilegan 28-21 sigur.

Mikið munaði um Aron Rafn Eðvarðsson í marki Hauka. Hann varði 19 skot í kvöld á meðan markverðir HK vörðu sjö samtals. Freyr Aronsson úr Haukum var markahæstur í kvöld með átta mörk úr jafnmörgum tilraunum.

Haukar og KA fara því í úrslitahelgina í Laugardalshöll í mars. Síðar í kvöld kemur í ljós hvort Afturelding eða FH og Fjölnir eða ÍR fylgi þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×