Handbolti

KA-menn fengu góða jóla­gjöf

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson er genginn í raðir KA.
Ágúst Elí Björgvinsson er genginn í raðir KA. EPA-EFE/Petr Josek

Gærkvöldið var svo sannarlega gott fyrir KA-menn. Ekki nóg með að þeir hafi unnið Framara í átta liða úrslitum Powerade-bikarsins í handbolta karla því eftir leikinn var greint frá því að markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson hefði samið við félagið.

Ágúst hefur verið án félags síðan hann yfirgaf Ribe-Esbjerg á dögunum. Hann er uppalinn hjá FH en hefur leikið erlendis síðan 2018, fyrst með Sävehof í Svíþjóð en svo Kolding og Ribe-Esbjerg í Danmörku auk þess sem hann fór til skamms tíma til Álaborgar.

Ágúst, sem er þrítugur, hefur leikið með íslenska landsliðinu síðan 2017 og farið með því á nokkur stórmót.

Hafnfirðingurinn er nú kominn aftur heim í Olís-deildina og samdi til eins og hálfs árs við KA.

KA tryggði sér sæti í undanúrslitum Powerade-bikarsins með fimm marka sigri á bikarmeisturum Fram í gær, 30-25. Auk KA tryggðu Haukar, ÍR og FH sér farseðilinn í Laugardalshöllina í gær.

KA er í 5. sæti Olís-deildarinnar með átján stig eftir fimmtán leiki. Næsti leikur liðsins er gegn ÍR miðvikudaginn 4. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×