Skoðun

Lofts­lags­mál: tölur segja sögur en hvaða sögu viljum við?

Ingrid Kuhlman skrifar

Loftslagsmál eru oft rædd í tölum: losunartölum, prósentum, markmiðum og tímasetningum. Slíkar upplýsingar eru vissulega nauðsynlegar. En einar og sér breyta þær sjaldnast því hvernig fólk skynjar loftslagsvandann eða bregst við honum. Til þess þarf að ræða hann einnig út frá sögum, gildum og merkingu. Það sem við trúum um heiminn, framtíðina og eigið hlutverk mótar viðbrögð okkar. Í því samhengi skipta sögur oft meira máli en tölur.

Skiljum heiminn í gegnum sögur

Loftslagsumræða sem byggir eingöngu á staðreyndum án merkingar nær sjaldnast til fólks á dýpri plani. Við lifum ekki lífi okkar í töflureikni heldur skiljum heiminn í gegnum sögur: sögur um framfarir, öryggi, árangur og gott líf. Á Íslandi höfum við lengi sagt sögu um náin tengsl við náttúruna, þar sem útivist, landslag og nærvera skipta máli fyrir líðan okkar og sjálfsmynd. Slíkar frásagnir móta væntingar okkar og ákvarðanir, oft án þess að við gerum okkur grein fyrir því.

Ein ríkjandi saga í nútímasamfélögum er framfarasagan: hugmyndin um að stöðugur vöxtur, aukin neysla og meiri hraði séu bæði eðlileg og æskileg þróun. Í þeirri sögu eru loftslagsmál oft sett fram sem tímabundið vandamál sem tækni eða framtíðarlausnir muni leysa, án þess að grundvallarspurningar séu spurðar.

Önnur algeng saga er tapsagan: hugmyndin um að loftslagsaðgerðir jafngildi fórnum, skerðingu og afturför. Hana má meðal annars sjá í bók Frosta Sigurjónssonar, Hitamálum. Þar er breytingum lýst sem ógn við lífsgæði fremur en leið til að vernda þau. Þegar loftslagsmál eru sögð með þessum hætti er skiljanlegt að fólk bregðist við með mótstöðu eða þreytu.

Loftslagsmál má líka segja sem sögu um sameiginlega ábyrgð og val. Sögu þar sem framtíðin mótast af því hvernig við ákveðum að lifa. Slík saga útilokar hvorki alvarleika né tap, en hún gerir ráð fyrir að gjörðir skipti máli.

Hvað teljum við vera gott líf?

Loftslagsmál snúast að lokum um gildi. Um það hvað við teljum vera velsæld, árangur og lífsgæði. Við lifum í menningu þar sem hraði, stöðug afköst og sífelld neysla eru oft sett fram sem sjálfsögð markmið. Samhliða því lifir önnur saga um kyrrð og nærveru: um gildi þess að hægja á, vera til staðar og finna merkingu utan mælanlegra afkasta. Loftslagsmál gera þessa andstæðu sýnilega og kalla á samtal um hvor sagan eigi að móta framtíðina.

Að tengja loftslagsmál við spurninguna um gott líf er ekki tilraun til að skerða lífsgæði heldur til að ræða þau af heiðarleika. Um hvað eykur raunverulega velsæld og hvað gerir það ekki. Þar liggur mikilvægt samtal sem fer langt út fyrir tæknilausnir.

Þögnin um loftslagsmál

Í mörgum samfélögum ríkir ekki aðeins ágreiningur um loftslagsmál heldur einnig þögn. Fólk forðast umræðuna, ekki endilega vegna þess að það hafni vandanum, heldur vegna þess að umræðan er þung, flókin eða tengd sektarkennd og kvíða.

Þögn getur verið varnarviðbragð. Hún getur einnig verið merki um að fólk skorti orðfæri til að ræða loftslagsmál á mannamáli. Þegar þau eru aðeins rædd sem tæknilegt neyðarástand, án tengingar við daglegt líf, gildi og framtíðarsýn, verður auðveldara að forðast þau.

Að rjúfa þögnina krefst ekki hærri raddstyrks eða fleiri tölulegra staðreynda. Það krefst nýrrar nálgunar: samtals sem gefur rými fyrir óvissu, spurningar og mismunandi sjónarmið. Samtals sem snýst ekki um að hafa rétt fyrir sér, heldur um að skilja hvað er í húfi.

Menning sem lykill að breytingum

Loftslagsmál verða ekki leyst með tæknilausnum einum saman. Þau krefjast menningarlegra breytinga: í því hvernig við tölum um framtíðina, hvað við teljum eftirsóknarvert og hvernig við skiljum ábyrgð okkar hvert gagnvart öðru.

Menning breytist í gegnum sögur, samtöl og sameiginlega reynslu. Þegar loftslagsmál eru sett fram sem hluti af stærri menningarlegri umræðu um gæði lífs, réttlæti og samhengi verða þau ekki lengur utanaðkomandi krafa heldur hluti af spurningunni um hver við erum og hvernig við viljum lifa.

Þar liggur kannski ein mikilvægasta loftslagslausnin: ekki í einni tölu eða einni tæknilausn, heldur í því að segja nýjar sögur um framtíð sem fólk vill vera hluti af. Á endanum snúast loftslagsmál ekki aðeins um hvað við getum gert heldur um hvaða sögu við veljum að lifa eftir.

Höfundur er í loftslagshópnum París 1,5 sem berst fyrir því að Ísland leggi sitt af mörkum til að takast á við loftslagsvandann.




Skoðun

Sjá meira


×