Neytendur

„Ég verð að segja að ég er svo­lítið hlessa“

Árni Sæberg og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður samtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður samtakanna. Vísir/Vilhelm

„Ég verð að segja að ég er svolítið hlessa. Ég er ánægður með að þeir hafi verið dæmdir ólöglegir þessir skilmálar en ósáttur við það að ekkert tjón hafi hlotist af skilmálunum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Landsbankinn var í dag sýknaður af öllum kröfum neytenda í tveimur síðustu vaxtamálunum svokölluðu.

Líkt og fjallað var um í dag taldi Hæstiréttur að tilteknir skilmálar Landsbankans í tveimur lánasamningum hafi verið ólögmætir en að ekkert tjón hefði hlotist vegna þeirra. Því var Landsbankinn sýknaður af öllum kröfum neytenda.

Breki segir þá niðurstöðu í takti við það sem Neytendasamtökin lögðu upp með, að því leytinu til að skilmálarnir hafi verið dæmdir ólögmætir.

Stór breyting

Í dómunum tveimur segir að skilmálarnir hafi heimilað bankanum að breyta vöxtum í samræmi við vaxtaákvarðanir hans á hverjum tíma.

„Það var það sem við lögðum upp með, að bönkunum verður ekki lengur heimilt að breyta vöxtum eftir hentisemi, nánast, heldur verði skilmálarnir að vera skýrir, aðgengilegir og útskýranlegir fyrir venjulegum neytanda. Auðvitað er það stór breyting en við erum svolítið hvumsa yfir því að bönkunum hafi verið, Landsbankanum í þessu tilviki, hafi verið heimilt að beita skilmálunum, eins og hann gerði og án þess að það hafi hlotist neitt tjón af. Svona í fljótu bragði þá er bara ósammála því.“

Leggjast yfir dómana ásamt jólabókunum

Breki segir að hann og lögmenn Neytendasamtakanna muni nú leggjast yfir dómana, ásamt jólabókunum. 

Grétar Dór Sigurðsson, Breki Karlsson og Ingvi Hrafn Óskarsson.

„Þetta verður kannski aðallesturinn yfir hátíðirnar og svo sjáum við til strax í byrjun næsta árs hvað við gerum.“

Hann bendir á að í gengislánamálunum svokölluðu á sínum tíma hafi þurft að höfða tugi mála áður en niðurstaða náðist neytendum í hag. Hann voni að ekki muni þurfa að koma til þess. Neytendasamtökin muni á nýju ári ræða við alla bankana og sjá hvernig þeir munu bregðast við dómunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×