Erlent

Trump nefnir nýja kyn­slóð orrustuskipa í höfuðið á sjálfum sér

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hefð hefur verið fyrir því að flugmóðurskip séu nefnd í höfuðið á forsetum en Trump hyggst ekki bíða eftir því. Næstu flugmóðurskip verða nefnd í höfuðið  á Clinton og Bush.
Hefð hefur verið fyrir því að flugmóðurskip séu nefnd í höfuðið á forsetum en Trump hyggst ekki bíða eftir því. Næstu flugmóðurskip verða nefnd í höfuðið á Clinton og Bush. Getty/Tasos Katopodis

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að til standi að smíða nýja kynslóð orrustuskipa, sem verða stærri, hraðskreiðari og „hundrað sinnum öflugri“ en nokkur önnur herskip. Þá verður þessi nýja gerð nefnd eftir Trump; „Trump class“.

„Þegar Trump-skipið USS Defiant birtist á sjóndeildarhringnum, munu óvinir okkar átta sig á því að bandarískur sigur á sjó er óumflýjanlegur,“ segir John Phelan, ráðherra málefna sjóhersins.

Hingað til hafa kynslóðir orrustuskipa verið nefndar í höfuðið á ríkjum Bandaríkjanna en Trump, sem er þekktur fyrir að setja nafn sitt á allt milli himins og jarðar, hefur verið einkar duglegur við það síðustu misseri að finna því stað í bandaríska stjórnkerfinu.

Fyrr í þessum mánuði var Friðarstofnunin í Washington endurnefnd í höfuðið á forsetanum og þá samþykkti stjórn Kennedy-menningarmiðstöðvarinnar í síðustu viku að endurnefna miðstöðina „the Trump-Kennedy Center“. Þess ber að geta að Trump skipaði sjálfan sig stjórnarformann fyrr á árinu.

Phelan sagði í samtali við blaðamenn í gær að orrustuskipin yrðu myndarlegustu herskip heims og byssur þeirra þær stærstu í heimi. Þá kynnti hann til sögunnar USS Defiant. „Þetta skip verður ekki bara gert til að fella niður örvarnar, heldur drepa bogamanninn,“ sagði hann.

Byrjað verður á tveimur skipum að sögn ráðamanna vestanhafs en þau gætu orðið allt að 25. 

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×