Körfubolti

Njarð­vík búin að losa sig við De Assis

Sindri Sverrisson skrifar
Julio De Assis skorar ekki fleiri stig fyrir Njarðvík í vetur.
Julio De Assis skorar ekki fleiri stig fyrir Njarðvík í vetur. vísir/Anton

Njarðvíkingar eru staðráðnir í að vera með í úrslitakeppninni í Bónus-deild karla í körfubolta í vor og þangað stefna þeir án Julio De Assis sem félagið hefur nú losað sig við.

Njarðvík sótti De Assis í haust, örskömmu áður en leiktíðin í Bónus-deildinni hófst, eftir að Carlos Mateo fékk sig lausan undan samningi.

De Assis þótti hins vegar ekki standa sig vel með Njarðvík og var til að mynda harðlega gagnrýndur í Bónus Körfuboltakvöldi á Sýn Sport.

Hann lék ellefu deildarleiki með Njarðvík og skoraði að meðaltali í þeim 10,2 stig og tók 6,8 fráköst.

Áður hafði De Assis spilað með þremur íslenskum liðum því hann lék fyrst með Vestra veturinn 2021-22 og svo einnig með Breiðabliki og Grindavík.

Í tilkynningu Njarðvíkinga er De Assis þakkað fyrir hans framlag og þar kemur einnig fram að vænta megi frekari tíðinda af leikmannamálum á næstunni.

„Við erum að undirbúa okkur fyrir seinni hluta tímabilsins og ætlum okkur ekkert annað en í úrslitakeppnina,” sagði Hafsteinn Sveinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.

Njarðvík er með átta stig eftir ellefu leiki, eða hálft tímabil, og situr í 9. sæti en með jafnmörg stig og ÍR og Álftanes sem eru í úrslitakeppnissætum. Liðin eru aðeins tveimur stigum frá fallsæti því ÍA og Þór Þ. koma næst með sex stig og botnlið Ármanns er svo með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×