Skoðun

Sjálf­stæðis­flokkurinn yfir­gefur okkur

Lárus Bl. Sigurðsson skrifar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarvirkið í íslenskri pólitík á mínu lífskeiði. Hann hefur lengst af verið eini hægri flokkur landsins og í mínu tilfelli eini valkosturinn fyrir mínar pólitísku skoðanir. Ég hef því alltaf verið sjálfstæðismaður og alltaf kosið flokkinn.

En ég er búinn að lenda í bullandi vandræðum á síðustu árum. Ég veit ekki lengur hvar ég hef Sjálfstæðisflokkinn. Hann segir eitt, en gerir annað. Þessi flokkur, sem á að vera varðhundur einkaframtaksins, flokkur lágra skatta og minni ríkisafskipta, talsmaður öryggis þjóðarinnar og einstaklingsfrelsis. Hann virðist bara hafa gleymt því.

Sjálfstæðisflokkurinn er í sambærilegri krísu og Íhaldsflokkurinn í Bretlandi. Þessir flokkar sváfu báðir á verðinum. Tóku fylgjendur sína sem sjálfsögðum hlut og sýndu þeim síðan fingurinn þegar þeir voru við völd. Aðgerðir (og aðgerðaleysi) hafa afleiðingar í stjórnmálum.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er góð, en það hefur ekki verið farið eftir henni. Það er ekki nóg að tala og tala, það verður að sýna orð í verki. Og þar brást Sjálfstæðisflokkurinn. Þess vegna er ég ekki lengur í Sjálfstæðisflokknum. Og það eru svo margir á sama stað og ég. Skiljanlega.

Við nefnilega yfirgáfum ekki Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn yfirgaf okkur.

Höfundur er stjórnmálafræðingur




Skoðun

Sjá meira


×