Innlent

Fimmtungur leikskólabarna borðar innan við tíu fæðu­tegundir

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Fimmtungur leikskólabarna er mjög matvandur.
Fimmtungur leikskólabarna er mjög matvandur. Vísir/Vilhelm

Um fimmtungur leikskólabarna borðar innan við tíu tegundir af matvælum samkvæmt rannsókn og eru útsettari fyrir næringarskorti. Svokölluð bragðlaukaþjálfun hefur gefið góða raun í að draga úr matvendni.

Doktorsneminn Berglind Lilja Guðmundsdóttir vinnur nú að fyrstu rannsókn sinnar tegundar á Íslandi sem miðar að því að þróa leiðir til að draga úr matvendni meðal leikskólabarna. Hún segir um fimmtungur barna sýni einkenni matvendni sem koma fram í mjög einhæfu fæðuvali, eða að þau borði innan við tíu tegundir af fæðu.

„Fæðutegund er bara til dæmis pulsur, það er ein fæðutegund. Einhver tegund af grænmeti, það getur til dæmis verið að börn borði bara gúrku, það er ein fæðutegund, þannig að við erum að tala um tíu fæðutegundir, færri en tíu fæðutegundir,“ segir Berglind.

Hún hefur unnið að rannsókninni í samstarfi við fjóra leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni þar sem svokölluð bragðlaukaþjálfun er innleidd til þess að draga úr matvendninni.

„Bragðlaukaþjálfun snýst svona í grófum dráttum um að þjálfa börnin í því að upplifa mat með öllum skynfærum sínum, þannig að við erum ekki bara að smakka matinn, við erum að horfa á hann, við erum að snerta hann, þefa af honum, hlusta á hann.“

Bragðlaukaþjálfun hefur þegar verið reynd meðal eldri barna og gaf þar góða raun að því leyti að börn hófu að borða fjölbreyttari fæðu. Í þeirri rannsókn sem nú stendur yfir mun Berglind rannsaka hvort inngrip líkt og það geti haft áhrif á vöxt barna til lengri tíma litið, þar sem takmarkað fæðuval getur leitt til næringarskorts. Það verður skoðað í samvinnu við Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

„Þannig að við söfnum þeim gögnum í gegnum heilsugæslurnar og erum þá að skoða vaxtarferil og vaxtarkúrfurnar, þannig að það er bæði þyngd og hæð. Og það er mjög áhugavert og hefur ekki verið gert áður, að skoða svona vaxtarferla í kjölfarið á svona fæðu miðað við í íhlutunum eins og okkar,“ segir Berglind.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×