Innlent

Seinka læknis­skoðun fyrir endur­nýjun öku­skír­teina

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ökumenn undir 75 ára þurfa ekki að gangast undir læknisskoðun.
Ökumenn undir 75 ára þurfa ekki að gangast undir læknisskoðun. Vísir

Innviðaráðherra hyggst breyta reglum um ökuskírteini svo ökumenn þurfi ekki að gangast undir lænisskoðun á grundvelli aldurs fyrr en það verður 75 ára gamalt. 

Drög að breytingunum hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda af innviðaráðuneytinu. Þar segir að ráðist sé í breytinguna í kjölfar beiðni heilbrigðisyfirvalda. Einstaklingar séu almennt heilbrigðari og lifi lengur en áður. Þá er einnig farið í breytinguna til að draga úr álagi á lækna sem framkvæma læknisskoðanir og veita vottorð en fjöldi vottorða er gefinn út ár hvert.

Árið 2024 sóttu yfir sextán þúsund eldri borgarar um endurnýjun ökuskírteina.

„Markmiðið er að einfalda umsóknarferlið, gera það mannlegra og nútímalegra. Helstu rök fyrir breytingunum eru annars vegar að fólk er heilbrigðara og lifir lengur nú en áður og hins vegar er sjaldgæft að umsóknum fólks á þessum aldri um endurnýjun ökuskírteinis sé hafnað,“ er haft eftir Ingu Sæland, settum innviðaráðherra, í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Málið er unnið í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×