Innlent

Boða til blaða­manna­fundar vegna stöðu barna

Agnar Már Másson skrifar
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, sendi kjarnyrtan póst til fjölmiðla þar sem tilkynnt er um blaðamannafundinn.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, sendi kjarnyrtan póst til fjölmiðla þar sem tilkynnt er um blaðamannafundinn. Vísir/Vilhelm

Þingflokkur Framsóknar boðar til blaðamannafundar í Alþingishúsinu kl. 10 á morgun, þriðjudag, til að kynna tillögur til að bregðast við stöðu barna og ungmenna í íslensku samfélagi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ingibjörgu Isaksen þingflokksformanni.  Þar segir að fundurinn verði haldinn í Skála í Alþingishúsinu. Fleira kemur ekki fram í skeytinu, fyrir utan hlekk á væntanlegt YouTube-streymi frá fundinum.

Ingibjörg segir í samtali við Vísi að flokkurinn hafi verulegar áhyggjur af stöðu barna, einkum í ljósi þess að nú taki við þriðji mennta- og barnamálaráðherrann á ársskeiði. 

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tók við ráðherraembættinu á ríkisráðsfundi í gær eftir að Guðmundur Ingi Kristinsson hætti sem ráðherra sökum veikinda en hann gekkst undir hjartaaðgerð fyrir áramót. Guðmundur gegndi embættinu í tæplega tíu mánuði og á undan honum gegndi Ásthildur Lóa Þórsdóttir embættinu í fjóra mánuði. 

„Það eru margar áskoranir, engin einföld leið,“ segir Ingibjörg sem vill lítið gefa upp um innihald fundarins á morgun. „En við munum fara yfir þessa stöðu betur á morgun.“

Framsóknarmenn fóru með menntamálin í síðustu ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×