Erlent

Macron: „Engin ógnun eða hótun mun hafa á­hrif á okkur“

Agnar Már Másson skrifar
Emmanuel Macron og Donald Trump, forsetar Frakklands og Bandaríkjanna í Hvíta húsinu.
Emmanuel Macron og Donald Trump, forsetar Frakklands og Bandaríkjanna í Hvíta húsinu. AP/Ludovic Marin

Frakklandsforseti segir að Evrópulönd muni svara fyrirhuguðum Grænlandstollum Donalds Trump Bandaríkjaforseta, taki þeir gildi. Hótanir Bandaríkjamannsins séu óásættanlegar og dragi ekki úr stuðningi Frakklands við Danmörku.

Í færslu á X gefur Macron lítið fyrir hótanir Trump, sem tilkynnti í dag að hann hygðist leggja tíu prósenta toll á allar vörur frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Bretlandi, Hollandi og Finnlandi frá og með 1. febrúar vegna þess að fyrrnefnd lönd styðja ekki innlimun Bandaríkjanna á Grænlandi, sem heyrir undir dönsku krúnuna.

„Engin ógnun eða hótun mun hafa áhrif á okkur, hvorki í Úkraínu, né á Grænlandi, né heldur annars staðar í heiminum þegar við stöndum frammi fyrir slíkum aðstæðum. Einnig vegna þess að það varðar öryggi á norðurslóðum og á ystu mörkum Evrópu okkar,“ skrifar hann.

„Tollahótanir eru óásættanlegar og eiga ekki heima í þessu samhengi. Evrópubúar munu bregðast við með sameinuðum og samræmdum hætti ef þær verða staðfestar,“ skrifar hann. 

„Við munum tryggja að fullveldi Evrópu sé virt.“

Að lokum segist hann munu ræða við evrópsk starfssystkini sín um málið.

Í færslu sem Bandaríkjaforseti birti á samfélagsmiðli sínum í dag segir hann sömuleiðis að tollurinn muni hækka um 15 prósentustig og nema 25 prósentum 1. júní hafi Bandaríkjamenn ekki fengið yfirráð yfir Grænlandi. Ekkert bendir til þess í færslu Trump að Ísland verði fyrir barðinu á þessum tollum þrátt fyrir að tveir fulltrúar Landhelgisgæslunnar hafi verið sendir til Grænlands. Norðmenn sendu aðeins tvo fulltrúa síns hers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×