Innlent

Sandra tekin við af Guð­brandi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sandra tók sæti Guðbrandar á Alþingi í gær eftir að sá síðarnefndi sagði af sér þinmennsku.
Sandra tók sæti Guðbrandar á Alþingi í gær eftir að sá síðarnefndi sagði af sér þinmennsku.

Sandra Sigurðardóttir tók í gær sæti á Alþingi í stað Guðbrands Einarssonar sem sagði af sér þingmennsku í síðustu viku. Sandra er þannig tekin við sem sjötti þingmaður Suðurkjördæmis og eini þingmaður Viðreisnar í kjördæminu. Forseti Alþingis tilkynnti um breytingarnar við upphaf þingfundar í dag, en líkt og kunnugt er sagði Guðbrandur af sér á föstudaginn í tengslum við tilraun hans til vændiskaupa árið 2012.

Guðbrandur greindi frá afsögn sinni í skriflegri yfirlýsingu til Vísis þegar Vísir hugðist fjalla um málið, en Guðbrandur var kallaður í yfirheyrslu á lögreglustöðina á Hverfisgötu árið 2012 vegna gruns um vændiskaup.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, las á þingfundinum í gær bréf frá Guðbrandi þar sem hann segir af sér þingmennsku, um leið og hún þakkaði honum fyrir sín störf fyrir hönd þingheims. „Ég óska honum fyrir hönd okkar allra velfarnaðar í framtíðinni,“ sagði Þórunn. 

Sandra hefur áður tekið sæti á þingi sem varamaður á Alþingi, en hún sagðist í samtali við Vísi í síðustu viku vera í áfalli vegna máls Guðbrandar. Hún kvaðst þó klár í slaginn til að taka sæti á Alþingi. Hún tók við sem framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar fyrir tveimur mánuðum en hún hefur jafnframt gegnt embætti forseta bæjarstjórnar í Hveragerði og verið varaþingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi þar til nú.

„Þetta er spennandi en skrítið. Ég tek við sem framkvæmdastjóri þingflokks í nóvember, er nýbúin að koma mér fyrir og komast inn í þetta. En það hefur gefið mér enn betri innsýn í starfið og ég held ég sé bara klár í slaginn til að takast á við verkefnin,“ sagði Sandra meðal annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×