Skoðun

Leghálsskimun – lítið mál!

Vala Smáradóttir skrifar

Leghálsskimun er okkar áhrifaríkasta forvörn gegn leghálskrabbameini. Markmið skimunar er að greina frumubreytingar sem gætu þróast yfir í krabbamein og veita meðferð ef þörf krefur. Síðan skipulögð skimun hófst hér á landi árið 1964 hefur dánartíðni lækkað um 90% á ári og nýgreiningum um 70%. Það er því ljóst að leghálsskimunin hefur bjargað lífi hundruða kvenna frá því að hún var tekin upp.

Á Íslandi er konum á aldrinum 23–29 ára boðið að koma á þriggja ára fresti og 30–64 ára konum á fimm ára fresti. Hér á landi er þátttaka í skimun góð en þó er alltaf einhver hópur kvenna sem ekki sinnir kallinu eða frestar því um lengri tíma að mæta. Sjaldnast af ásetningi, en í önnum daglegs lífs lendir það sem skiptir mestu máli neðst á forgangslistanum. Jafnvel læðast að hugmyndir um vesen og óþægindi. „Ég fer seinna“ getur nefnilega orðið að „ég hefði átt að fara fyrr“.

Nú er í gangi vitundarvakning um leghálsskimanir. Þegar við í Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins fórum yfir málið með samstarfsaðilum okkar vorum við sammála um að það þyrfti að ná til þess hóps kvenna sem hefur látið leghálsskimanir sitja á hakanum og jafnframt til samfélagsins í kringum þessar konur. Í leiðinni skapa jákvæða umræðu, hvatningu og reyna að eyða því tabúi sem getur loðað við krabbamein í kvenlíffærum.

Í þessu átaki er annars vegar lögð áhersla á að ná til ungra kvenna á aldrinum 28–34 ára sem eru óbólusettar, hafa jafnvel aldrei mætt í skimun áður og finna fyrir óvissu og jafnvel ótta. Hins vegar kvenna með erlent ríkisfang (með sérstaka áherslu á stærsta hópinn sem eru pólskar konur) sem eru nýjar í landinu og kannski skortir þekkingu á kerfinu og eigin réttindum. Þær geta jafnvel upplifað svipaða óvissu og margar íslenskar konur, bara í enn ríkari mæli.

Þegar við fórum að velta fyrir okkur hvernig við gætum sagt við konur: „Drífið ykkur, þetta er lítið mál“ án þess að hljóma ávítandi áttuðum við okkur á að það þarf ekki að alls ekki að segja það með látum. Bara minna konur á það sem þær vita, að þær eru hvunndags hörkutól!

Það er varla nokkur hópur í samfélaginu jafn vanur endalausu smávægilegu veseni og konur. Við eyðum heilu og hálfu dögunum í óþægilegum brjóstarhöldurum eða skóm sem meiða, klyfjaðar verkjalyfjum, hælsæriplástrum og túrvörum, ávallt viðbúnar hvers kyns óþægindum. Við tökumst á við alls kyns vesen dag frá degi, allt frá minni óþægindum til stærri áskorana, þegar við teljum það skipta máli fyrir heilsu, öryggi, nútíma eða útlit.

Í þessu samhengi er leghálsskimun barnaleikur. Vissulega getur þetta verið pínu óþægilegt og vissulega þarftu að taka kannski 30 mín frá á nokkurra ára fresti, en það gæti bjargað lífi þínu.

Vitundarvakningin okkar stendur yfir nú í janúar, í tilefni alþjóðlegs mánuðar gegn leghálskrabbameini, og er unnin í samstarfi við Samhæfingarstöð krabbameinsskimana, Ungar athafnakonur, Kraft og Lífskraft og síðast en ekki síst auglýsingastofuna Hvíta húsið. Frekari upplýsingar um vitundarvakninguna má finna á upplýsingavefnum leghalsskimun.is

Ef að þér læðist hugsunin „ég bóka þetta seinna“ þegar boðið berst, hunsaðu hana, bókaðu þér heldur tíma strax því leghálsskimun er lítið mál!

Höfundur er formaður og framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.




Skoðun

Sjá meira


×