Handbolti

Danir komnir í gang á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Gidsel og félagar í danska landsliðinu eru farnir að hita og það eru ekki góðar fréttir fyrir hinar þjóðirnar.
Mathias Gidsel og félagar í danska landsliðinu eru farnir að hita og það eru ekki góðar fréttir fyrir hinar þjóðirnar. EPA/Bo Amstrup

Danska handboltalandsliðið er búið að finna rétta gírinn á Evrópumótinu í handbolta en liðið fylgdi eftir sigri á Frökkum með sannfærandi sigri á Spánverjum í dag.

Danska liðið vann á endanum fimm marka sigur, 36-31, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16-14.

Danir komu óvænt stigalausir inn í milliriðilinn eftir óvænt tap á móti Portúgal í riðlakeppninni en hafa nú unnið tvo fyrstu leiki sína í milliriðlinum.

Danir komust í 4-1 í upphafi leiks og voru 15-11 yfir þegar lítið var til hálfleiks. Spánverjar minnkuðu muninn í tvö mörk fyrir hálfleik.

Spánverjar skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks og náðu svo að jafna metin í 17-17. Þá komu fimm dönsk mörk í röð. Danir náðu 10-2 kafla og voru allt í einu komnir átta mörkum yfir, 27-19.

Eftir það voru úrslitin svo gott sem ráðin þótt hálfleikurinn væri ekki hálfnaður.

Spánverjar löguðu aðeins stöðuna og sluppu við stóran skell en danskur sigur var aldrei í hættu.

Emil Jakobsen skoraði átta mörk fyrir Dani en þeir Simon Pytlick og Niclas Kirkeløkke voru með sex mörk hvor. Mathias Gidsel skoraði fimm mörk. Emil Nielsen varði vel í danska markinu og var valinn besti maður leiksins.

Marcos Fis var markahæstur hjá Spánverjum með níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×