Handbolti

„Ís­lenska geð­veikin sem við tölum oft um, þetta var hún“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggó Kristjánsson var gjörsamlega frábær fyrir íslenska liðið í dag.
Viggó Kristjánsson var gjörsamlega frábær fyrir íslenska liðið í dag. Vísir/Viggó

Viggó Kristjánsson var maður leiksins er Ísland vann frækinn átta marka sigur gegn Svíum á EM í handbolta í dag.

Viggó kom inn af bekknum og skoraði ellefu mörk úr jafn mörgum skotum. Það er því óhætt að segja að hann hafi nýtt tækifærið vel og fyrsta spurning sem hann fékk í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson eftir leik var hversu peppaður hann hefði verið að koma inn og láta ljós sitt skína á skalanum 1-10.

„Bara tíu. Það var bara kominn tími til,“ sagði Viggó einfaldlega eftir leikinn.

„Ég var ekkert brjálaður, en auðvitað var ég kannski langt niðri eftir Króataleikinn. En það var bara það kvöld,“ bætti Viggó við.

„Sem betur fer kemur bara strax leikur tveimur dögum seinna og það þurfti bara að undirbúa sig fyrir þann leik. Ég fann það bara að við vildum allir vinna þennan leik í dag. Það fór ekkert á milli mála að orkan í leikmönnum var allt önnur en á móti Króötum.“

Þá segir Viggó að orkan sem vantaði gegn Króötum hafi skilað sér í hús í dag.

„Já, og öll hjálparvörnin í dag og bara þessi íslenska geðveiki sem við tölum oft um, þetta var hún. Og stúkan með og þetta var bara ótrúlega gaman.“

Þá segir hann það hafa komið skemmtilega á óvart að sjá og heyra að Íslendingar hafi svo gott sem átt höllina í Svíþjóð, þrátt fyrir að hafa verið í miklum minnihluta.

„Það var ótrúlega skemmtilegt og ég held bara að áhorfendur hafi fundið það að við komum með orkuna á vellinum og svo kom orkan úr stúkunni og saman tókum við yfir. Þeir komu vissulega með áhlaup þarna í byrjun seinni, en við héldum áfram að þora og náðum að halda þessu forskoti.“

Hann viðurkennir þó að það hafi verið óþægilegt að vita af Svíunum að anda ofan í hálsmálið á íslenska liðinu.

„Auðvitað halda þeir áfram að setja þrýsting á okkur. Þeir eru með frábært lið og við fórum að leka inn fleiri mörkum en við vorum að gera í fyrri hálfleik. Sem betur fer héldum við áfram að þora í sókninni. Við héldum áfram að þora að taka skot og við héldum áfram að þora að keyra á þá í seinni bylgjunni og það skipti máli. Við fengum nokkur auðveld mörk, en annars hefði þetta kannski getað orðið erfiðara.“

Leikurinn var þó ekki aðeins dans á rósum fyrir Viggó, því hann snéri sig þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka og gat ekki klárað leikinn. Hann er þó viss um að hann verði klár í næsta leik.

„Ég bara snéri mig þegar það voru einhverjar tíu mínútur eftir. Ég held að ég hafi stigið ofan á Gísla Þorgeir í vörninni. Hann á ekkert að vera þarna í vörninni að þvælast fyrir,“ sagði Viggó léttur.

„Þetta var ekki gott, en ég vonast til að ná mér sem fyrst,“ sagði Viggó að lokum.

Klippa: Viggó eftir sigurinn gegn Svíum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×