Skoðun

Hagur barnsins er leiðar­ljós að betra sam­fé­lagi

Heiðdís Geirsdóttir og Orri Hlöðversson skrifa

Hversu langur á leikskóladagurinn að vera? Er það vinnumarkaðarins að stýra því eða á velferð barnsins að vera í fyrsta sæti? Eftir rúm tvö ár af breyttu fyrirkomulagi í leikskólum Kópavogs er það augljóst að styttri dagar og meiri sveigjanleiki búa til bætt starfsumhverfi fyrir öll börn, sama hversu lengi þau dvelja í leikskólanum.

Kópavogsmódelið er ekki bara skipulagsbreyting, það er samfélagsleg viðhorfsbreyting þar sem hagur barnsins er leiðarljósið. Rúmlega helmingur barna dvelur nú skemur í leikskólanum en fyrir breytingu og meðaldvalartíminn hefur styst. Dagurinn byrjar í rólegheitum þar sem börnin mæta eitt af öðru í skólann og endar með sama hætti þegar þau eru sótt. Umhverfið er því betra fyrir börnin, sér í lagi þau yngstu sem hafa minna álagsþol.

Stjórnendur og starfsfólk lýsa því að við þetta skapist meira rými og ró til að sinna þeim börnum sem þurfa á lengri dvalartíma að halda; álag hefur minnkað og starfsánægja aukist. Það sem skiptir miklu máli fyrir öryggi barnanna er að starfsmannavelta er nú minni og auðveldara er að manna stöður en áður. Raunin er sú að ekki hefur þurft að loka deildum vegna manneklu síðan módelið var innleitt.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um að hagur barnsins skuli vera í forgrunni þegar ákvarðanir um líf þess eru teknar og það höfum við í Kópavogi gert. Leikskólinn er ein mikilvægasta stoð sveitarfélagsins og samfélagsins alls og við verðum að horfa á þarfir og hag barnsins sem grunnstoðirnar í öllu starfi. Með styttri leikskóladögum og auknum sveigjanleika sköpum við rými þar sem barnið fær að njóta þess að vera barn, læra í leik, mynda tengsl og þroskast í styðjandi og kærleiksríku umhverfi.

Reynsla okkar af Kópavogsmódelinu sýnir að aukinn sveigjanleiki í vistun, sex tíma gjaldfrjáls leikskóli og skráningardagar hafa skapað tækifæri fyrir foreldra til að samræma betur vinnu og fjölskyldulíf. Leiðarljós okkar, sem mótum leikskólastarf í Kópavogi, er að vera rödd barnsins, setja þarfir þess og þroska í fyrsta sæti og skapa samfélag þar sem börn fá að blómstra.

Ef svarið við spurningunni „Hverjum á kerfið að þjóna?“ er barnið – þá er leiðin skýr.

Heiðdís Geirsdóttir, formaður leikskólanefndar Kópavogs

Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs




Skoðun

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×