Erlent

Launakerfið er veikleikinn

Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að niðurstöður Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2003 komi sér ekki á óvart. Hann segir stærsta veikleikann í ríkisfjármálum vera fólgið í launakerfinu. "Það er mjög margt rétt í þessu og komur okkur ekki á óvart. Stærsti veikleikinn í þessu, og hefur legið fyrir árum saman, er hvernig staðið er að launamálum. Fyrirkomulag launamála er stóri veikleikinn í ríkisfjármálum Íslands," segir Einar Oddur. Hann segir að núverandi kerfi sé ómögulegt í framkvæmd og að ríkisforstjórar hafi ekki nægilega sterka stöðu til þess að hafa stjórn á launamálum. "Þetta er stóra málið og þetta er aðalorsök hækkunar samneyslunnar," segir Einar Oddur. Hann segir að þrátt fyrir að ýmsir sigrar hafi verið unnir í stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum þá sé sums staðar enn agaleysi "sem ekki eigi að líða."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×