Erlent

Forsætisráðherrann segir af sér

Ahmed Qurie, forsætisráðherra Palestínumanna, sagði af sér nú fyrir stundu og tilkynnti hann Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, ákvörðun sína. Arafat neitaði hins vegar að taka við afsögninni. Fundur stendur nú yfir á meðal ráðamanna þjóðarinnar. Afsögn forsætisráðherrans kemur í kjölfar þess neyðarástands sem ríkt hefur á Gasasvæðinu. Uppreisnarmenn frömdu þrjú mannrán á innan við sólarhing og öryggismál hafa verið í lamasessi. Uppreisnarmennirnir kröfðust þess að Arafat myndi uppræta spillingu sem sögð er hafa viðgengist innan öryggissveita heimastjórnarinnar. Arafat féllst ekki á uppsögn forsætisráðherrans, né heldur uppsagnir tveggja háttsettra yfirmanna hjá öryggissveitunum. Hann samþykkti hins vegar í morgun að sveitirnar yrðu endurskipulagðar en alþjóðasamfélagið hefur lengi þrýst á hann að gera bragabót á þeim málum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×