Erlent

Sharon og Arafat fara halloka

Ariel Sharon og Jassir Arafat virðast báðir standa höllum fæti eftir pólitísk átök við eigin bandamenn undanfarna daga. Stjórnarslit og nýjar kosningar virðast óumflýjanlegar í Ísrael og palestínska þingið frestaði í dag fundi í mótmælaskyni við Arafat. Ariel Sharon segist gefa lítið fyrir þvermóðsku flokksbræðra sinna, sem höfnuðu hugmyndum um myndun samsteypustjórnar með Verkamannaflokknum í gær. Hann kveðst eftir sem áður ætla að reyna myndun stjórnar og að tryggja brotthvarf Ísraelsmanna frá Gasa-ströndinni en þær hugmyndir hafa staðið í harðlínumönnum innan Likud-flokks Sharons. En þó að Sharon sé kokhraustur er óvíst að fyrirætlanir hans nái fram að ganga, því í ljósi lítils stuðnings innan Likud-flokksins ákváðu leiðtogar Verkamannaflokksins síðdegis að slíta viðræðum um hugsanlega samsteypustjórn. Simon Perez hvatti síðdegis til þess að þingkosningar yrðu boðaðar en Sharon líst ekkert á það. Því virðist sem hagur Sharons sé heldur bágur þessa stundina og völd hans virðast fara þverrandi. Kollegi hans í röðum Palestínumanna, Jassir Arafat, er nú í svipaðri stöðu. Í gær viðurkenndi hann spillingu innan stjórnkerfisins og að ýmis mistök hefðu verið gerð í stjórnartíð sinni en vildi í dag ekki skrifa undir umbótaáætlun sem þingið hafði lagt til. Í kjölfarið ákváðu þingmenn að fresta fundum þingsins í mótmælaskyni. Pólitískur máttur Arafats virðist raunar fara þverrandi, eins og Sharons. Ýmsir stjórnmálaskýrendur hafa haldið því fram að Sharon og Arafat væru ljón á vegi raunverulegs friðar fyrir botni Miðjarðarhafs og í ljósi þeirra ummæla er fylgst með framvindu mála með mikilli athygli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×