Innlent

Clinton hittir íslenska ráðamenn

Bill Clinton mun hitta íslenska ráðamenn á þriðjudaginn kemur, þegar hann verður hér á landi ásamt eiginkonu sinni og sendinefnd Bandaríkjaþings. Leynd hefur ríkt yfir því hvað Clinton-hjónin hyggðust gera hér á landi á þriðjudaginn, en eins og Stöð 2 og Bylgjan hafa greint frá verða þau hér í tengslum við heimsókn sendinefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings. Nú liggur fyrir að Clinton mun hitta Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Clinton mun væntanlega einnig hitta Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, en það hefur þó ekki enn fengist staðfest. Clinton hefur ekki komið hingað til lands síðan á námsárum sínum í Oxford, þegar hann flaug að jafnaði með Loftleiðum eins og aðrir fátækir námsmenn. Hann stansaði þó aðeins stutta stund í Keflavík áður en fluginu var haldið áfram til Lundúna. Bandaríska þingmannanefndin, sem John McCain fer fyrir, sem mun kynna sér hugmyndir Íslendinga um umhverfisvænar orkulindir, einkum vetni, á fundi í Bláa lóninu, og snæða hádegisverð í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×