Innlent

Ákvörðuninni ekki breytt

Stjórn Kjördæmissambands framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi krefst þess að formaður og þingflokkur Framsóknarflokksins falli frá þeirri ákvörðun að láta Siv Friðleifsdóttur hætta í ríkisstjórn og tryggi henni áframhaldandi ráðherraembætti eftir að flokkurinn tekur við forsætisráðuneytinu 15. september. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ákvörðun þingflokksins verði ekki breytt. Stjórn Kjördæmasambands Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi samþykkti harðorða ályktun gegn flokksforystunni á fundi sínum gærkvöld. Þar er bent á að Suðvesturkjördæmi sé fjölmennasta kjördæmi landsins og að þar hafi flokkurinn fengið fimmtung atkvæða sinna í síðustu kosningum, eða 6.387 af 32.484 atkvæðum alls. Siv hafi því flest atkvæði allra þingmanna Framsóknarflokksins á bak við sig og skjóti skökku við að hún skuli vera látin víkja. Auk þess er bent á að Siv hafi langa þingreynslu, sé af nýrri kynslóð í flokknum, og hafi aukinheldur hlotið afgerandi traust flokksmanna í embætti ritara flokksins, eina af þremur æðstu valdastöðum hans. Af þeim sökum sé óverjandi að vísa henni úr ríikisstjórn, eins og þingflokkurinn samþykkti í síðustu viku, og er þess krafist að sú ákvörðun verði endurskoðuð. Ekki náðist í Halldór Ásgrímsson, formann flokksins, fyrir hádegi en í Morgunblaðinu í dag er haft eftir honum að ekki komi til greina að endurskoða ákvörðun þingflokksins frá liðinni viku. Hún hafi verið tekin með formlegum hætti, í samræmi við lög flokksins og með yfirgnæfandi meirihluta, og því kæmi ekki annað til greina en að standa fast við hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×