Innlent

Stjórnin deilir um skattalækkun

Deilt er um það í ríkisstjórninni hvenær lækka eigi skatta. Framsóknarmenn vilja bíða með að lækka tekjuskatt þar til lengra er liðið á kjörtímabilið en sjálfstæðismenn vilja byrja að lækka hann strax á næsta ári.  Stjórnarfrumvarp um skattalækkanir hefur ekki verið kynnt og heimildir fréttastofu herma að ástæðan sé fyrst og fremst ágreiningur forystumanna stjórnarflokkanna um tímasetningar. Þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu drög að fjárlögum á fundum sínum í gær en þar voru ekki kynntar til sögunnar væntanlegar skattalækkanir. Fjárlagafrumvarpið verður lagt fram 1. október. Samhliða því mun fjármálaráðherra leggja fram hliðarfrumvörp við fjárlagafrumvarpið, þar á meðal skattafrumvarp. Forystumenn beggja flokka hafa lýst því yfir að staðið verði við öll áform um skattalækkanir á kjörtímabilinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa sjálfstæðismenn viljað lækka tekjuskattinn strax á næsta ári. Framsóknarmenn hafa viljað standa við skattalækkanir eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum en hallast að því að bíða þar til lengra er liðið á kjörtímabilið. Þeir vilja skoða framhaldið með hliðsjón af velferðarmálum og þróun efnahagsmála en varað hefur verið við lækkun tekjuskatts með tilliti til verðbólgu. Þá hefur einnig verið áherslumunur varðandi fjármagnstekjuskatt en sjálfstæðismenn eru fremur mótfallnir því að hann verði hækkaður og telja að það geti aukið fjárstreymi úr landi. Skattur af fjármagnstekjum er tíu prósent en tekjuskattur er fjörutíu prósent. Alls töldu Íslendingar fram 64 milljarða í fjármagnstekjur í fyrra sem var fjörutíu prósentum meira en árið áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×