Innlent

Hvetur til að gagnrýni verði hætt

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hvetur Framsóknarkonur til að láta af gagnrýni sinni á forystu flokksins. Eðlilegt sé að gagnrýna forystuna einu sinni en ekki í heila viku. Á heimasíðu Valgerðar rifjar hún upp stjórnmálaferil sinn og bendir ekki hafi nein mótmæli heyrst frá Framsóknarkonum, þegar hún varð ekki ráðherra árið 199 þrátt fyrir 12 ára þingsetu. Í pistli sínum segir Valgerður meðal annars: „það er sjálfsagt að halda til haga samþykktum flokksins í jafnréttismálum, láta til sín heyra og skamma þingflokkinn og formanninn dálítið hressilega einu sinni en ekki í heila viku eða meira." „Ég minnist þess ekki að það hafi allt snúið á haus þegar ég varð ekki ráðherra 1999 og ég minnist þess heldur ekki að svo hafi verið þegar Ingibjörg Pálmadóttir hætti og karlmaður kom inn í ríkisstjórnina í stað hennar." Landssamband Framsóknarkvenna heldur opinn fund í dag, en tilefni fundarins er að mótmæla þeirri ákvörðun þingflokks Framsóknarmanna að víkja Siv Friðleifsdóttur úr ríkisstjórn. Yfirskrift fundarins er: "Staða kvenna í framsóknarflokknum - aftur til fortíðar! Vér mótmælum allar!" Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi og einn stofnenda Landssambands Framsóknarkvenna flytur framsögu og er búist við hún skjóti föstum skotum að flokksforystunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×