Innlent

Ágreiningur um hlutverk nefndar

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra skipaði í gær Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, formann stjórnarskrárnefndar, sem hefur það hlutverk að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Jón segir mikið verkefni framundan: "Ég vonast til að horft verði til framtíðar í starfi nefndarinnar og nefndin verði ekki of bundin af fortíðinni". Jón segir að samkvæmt skipunarbréfi nefndarinnar verði hlutverk hennar að endurskoða fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla meðal annars um hlutverk Alþingis og forseta Íslands. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, og fulltrúi í nefndinni lýsir undrun sinni á skipunarbréfinu. "Við setjumst ekki í þessa nefnd til að taka við skipunum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Við teljum margt brýnna en að endurskoða þessi atriði. Við leggjum áherslu á þjóðaratkvæðagreiðslur, að landið sé eitt kjördæmi og að auðlindir séu sameign þjóðarinnar." Ögmundur Jónasson, Vinstri grænum, segist ekki kannast við að gert hafi verið ráð fyrir að verkefni nefndarinnar yrðu takmörkuð við vissa þætti stjórnarskrárinnar. Jón Kristjánsson bendir á að stutt sé síðan mannréttinda- og kosningakaflarnir hafi verið endurskoðaðir. Aðrir nefndarmenn eru Jónína Bjartmarz, fulltrúi Framsóknarflokksins en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður, Þorsteinn Pálsson sendiherra og Birgir Ármannsson alþingismaður. Auk Össurar Skarphéðinssonar er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður fulltrúi Samfylkingarinnar og formennirnir Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson fulltrúar Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins. Fjögurra manna sérfræðinganefnd mun starfa með nefndinni, en formaður hennar er Eiríkur Tómasson lagaprófessor. Nefndinni er ætlað að skila tillögum til breytinga á stjórnarskránni í ársbyrjun 2007.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×