Innlent

Finni leiðir til þjóðaratkvæðis

Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að við endurskoðun stjórnarskrárinnar sé sjálfsagt að fundnar verði lýðræðislegar leiðir til þess að koma mikilvægum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á stjórnmálafundi í Valhöll í gær sagði Davíð Oddsson að hann teldi flesta á þeirri skoðun að 26. grein stjórnarskrárinnar, sem fjallar um neitunarvald forseta, væri ómöguleg eins og hún er. Við hana væri ekki búandi. Davíð sagði einnig ljóst að hún haefði aldrei verið hugsuð til þess að forseti Íslands færi að taka afstöðu með stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn eða afstöðu með tilteknum aðilum sem hefðu verið framarlega í því að styrkja kosningabaráttu hans. Formaður Sjáfstæðisflokksins sagðist vona að nýskipuðum fulltrúum stjórnarskrárnefndar bæri gæfa til þess að finna flöt svo atvikið sem varð í sumar myndi aldrei endurtaka sig. Ef menn vildu eiga leið til þess að koma málum, sem þingið væri með til meðferðar, til þjóðarinnar væri sjálfsagt að finna heilbrigðar, eðlilegar og lýðræðislegar leiðir til þess. Atburðir síðastliðins sumars hefði sýnt að sú aðferð sem 26. grein stjórnarskrárinnar kveði á um hefði ekki gengið upp. Hún væri til þess fallin að skapa stórkostlegan óróleika, hatur og gjá milli fólks í þjóðfélaginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×