Innlent

Gallup svarar ráðherrum

Stjórnendur IMG-Gallups á Íslandi sitja nú á fundi til að móta afstöðu til niðrandi ummæla þriggja ráðherra um skoðanakönnun sem félagið gerði nýverið um viðhorf til lista yfir staðföstu ríkin svonefndu. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra undrast þá ákvörðun Gallups á Íslandi að spyrja almenning hvort Ísland eigi eða eigi ekki að vera á lista með þeim þjóðum sem styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Björn segir á heimasíðu sinni að Gallup sé alþjóðlegt gæðamerki um vönduð vinnubrögð við skoðanakannanir og að teknu tilliti til þessara atriða sé meiri ástæða en ella til að huga að vinnubrögðum Gallups í alþjóðlegu samhengi. Björn veltir fyrir sér um hvaða lista sé verið að spyrja, til dæmis listann frá því snemma árs 2003, hvort hann sé enn til eða hvort átt sé við lista yfir þær þjóðir sem standa að uppbyggingu Íraks á grundvelli ályktana Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Davíð Oddsson utanríkisráðherra tók í svipaðan streng í viðtali við Stöð 2 á laugardag þegar hann sagði að spurningin hafi verið svo vitlaus að hann hefði sjálfur átt í vandræðum með að svara henni. Þá hefur Halldór Ásgrímsson forsætisráðhera sagt að þetta væri villandi spurning. Eins og áður sagði eru stjórnendur Gallups að fara yfir þessa gagnrýni og ætla að svara henni síðar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×